Áhrif þess að borða óhollan mat eru ekki augljós um leið og hann er borðaður en til lengri tíma mun slíkur matur hafa mjög slæm áhrif. Það sama á við um gjaldeyrishöftin. Höftin trufla ekki daglegan rekstur fyrirtækja en til lengri tíma munu þau hafa slæm áhrif. Þetta sagði Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins í myndbandi á fundi VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka, í morgun. Fjallað var um umhverfi atvinnulífsins og áhrif haftanna á atvinnulífið.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði á fundinum að menn sjái nú til botns í vandanum tengdum gjaldeyrishöftunum. Vandinn hafi verið mun stærri en búist var við. Nú sé hinsvegar búið að skilgreina hann og staðan sé nú betri en fyrir ári síðan til að þróa lausnir til að takast á við vandann.

Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi, Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, voru þátttakendur í pallborðsumræðum á fundinum.