Álfyrirtæki og önnur fyrirtæki í stóriðju hafa verið mjög áberandi síðustu á og öll umræða um framfarir gjarnan verið í kringum þau.

Því er vert að spyrja Orra Hauksson, nýráðinn framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, hvort að samtök á borð við þau sem hann stýrir eða þeir sem hvað mestu eru áberandi í atvinnulífinu hafi e.t.v. gleymt rakaranum og bakaranum, þ.e. minni iðnrekendum sem fer ekki jafn mikið fyrir í umræðunni?

„Ég held að opinber umræða liggi gjarnan þar sem mestir möguleikar eru á atvinnusköpun og þar sem tilfinningar eru sterkar. Þess vegna hafa álfyrirtækin verið áberandi,“ segir Orri í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið.

Eftirfarandi kafli rataði ekki inn í prentútgáfu blaðsins en er hér birtu í heild sinni:

„Í daglegu starfi hjá samtökunum er hins vegar verið að vinna rösklega með ýmsum fyrirtækjum, s.s. matvælaiðnaði, prenturum, málmiðnaði, líftækni, sprota- og tæknifyrirtækjum og fleirum, þó svo að það rati ekki endilega í fjölmiðla,“ segir Orri.

„Íslenskir tölvuleikjaframleiðendur og ýmis annar hugverkabransi er í blússandi vexti og vandamál þeirra eru eins konar velmegunarsjúkdómur, það finnst einfaldlega ekki nægilega mikið af sérhæfðu fólk til að ráða. Starf samtakanna iðnaðarins með þeim og öðrum fjölbreyttum greinum fer kannski ekki jafn hátt og stórframkvæmdir. Hið daglega starf samtakanna er þó margvíslegt og átakið sem stendur fyrir dyrum hjá okkur snýst um nýsköpun, atvinnu og framleiðni í öllum geirum, stórum sem smáum. „

Maður kemst samt ekki hjá því að velta fyrir sér stöðu minni fyrirtækja þar sem væntanlega lítið má út af bera. Eru einhver sérstök atriði sem þér finnst skipta meira máli en önnur?

„Það eru nokkur atriði sem skipta mjög miklu máli fyrir minni iðnrekendur, hvort sem er í málmi, prenti, matvælum eða hvaða grein það er,“ segir Orri.

„Í fyrsta lagi er skattaumhverfið grundvallarmál og getur skipt sköpun fyrir minni fyrirtæki. Þá hefur vaxtastigið verði of hátt og það hefur komið fyrirtækjunum illa, í fjármögnum þeirra og áætlanagerð. Nú bætist við nokkuð hár aukareikningur í formi hækkunar hins opinbera á raforku, beint í kjölfar hækkaðra orkuskatta. Iðnfyrirtæki nota mjög mörg mikla orku þannig að breyting á orkuverði hittir þau verulega illa fyrir, á viðkvæmum tíma.“

„Þá eru nokkur dæmi um það þessa daga að gjaldeyrishöftin séu að stöðva fjárfestingu í nokkrum spennandi sprotum“, bætir hann við.

Þá segir Orri að innan ákveðinna greina séu önnur tiltekin mál sem skipti verulegu máli, t.d. sé afleitt að vörugjöldin skulu vera farin að líta aftur dagsins ljós, svo dæmi sé tekið. Þess utan sé hver grein með sín sérstöku viðfangsefni sem þarf að sinna og sérfræðingar SI vinni daglega í því.

„Stóra sameiginlega málið er hvernig efnahagsumhverfi á að vera hérna. Menn eru hikandi því myndin framundan er gerð svo óskýr. Hvernig mun umhverfi fjárfestinga í helstu greinum líta út? Þetta veit enginn og það hefur vond dómínóáhrif út í öll horn hagkerfisins,“ segir Orri.

„Atvinnulífið og við samtök þeirra munu gera sitt til þess að leysa þessi verkefni. Við viljum vinna með stjórnvöldum en ekki á móti þeim. En við þurfum að fá stjórnvöld með til að rífa niður hindranir og þurrka móðuna af glerinu. Hið opinbera þarf til að mynda að taka ákvarðanir hið snarasta um tímasetningu framkvæmda á þeirra vegum, sem arðbærar eru, og sem standa fyrir dyrum hvort sem er. Byggingariðnaðurinn er verklaus. Verfærin liggja og ryðga brátt. Hið opinbera ætti því að geta gert góð verkkaup einmitt núna en það þarf að forgangsraða og leggja áherslu að verkefnin séu arðbær. Lífeyrissjóðirnir hafa þar að auki boðist til að veita lánsfé til slíkra aðgerða, þannig að ekki er eftir neinu að bíða. Ég ætla að láta eftir mér nokkra bjartsýni um röggsemi á næstu vikum og mánuðum í þessu efni.“

Nánar er rætt við Orra í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar segir Orri að að atvinnulífið þurfi sjálft að flýta fyrir endurreisn efnahagslífsins en vonast um leið að stjórnvöld flækist ekki of mikið fyrir. Þá fjallar Orri um fyrirhugað átak SI, stöðu atvinnulífsins almennt, samskiptin við stjórnvöld og fleira.