Orri Hauksson, nýráðinn framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, starfaði fyrir um áratug sem aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, og síðar meir starfaði hann með Björgólfi Thor Björgólfssyni athafnamanni.

Það er því óhætt að segja að Orri hafi starfað með umsvifamiklum og á tíðum umdeildum einstaklingum í íslenskri pólitík og viðskiptalífi.

Þegar tilkynnt var um ráðningu Orra til SI í sumar fóru af stað raddir sem voru áfjáðar í að rifja upp samstarf hans við Björgólf Thor. Aðspurður hvort hann telji að samstarfið við Björgólf Thor rýri á einhvern hátt trúverðugleika hans sem framkvæmdastjóri SI, svarar Orri því umsvifalaust neitandi.

„Ég hef ekki fundið fyrir því, hvorki meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins né hjá þeim aðilum sem ég hef átt samskipti við vegna samtakanna,“ segir Orri.

„Ég, líkt og aðrir, er með ákveðna menntun og ákveðna starfsreynslu, meðal annars með áberandi og umdeildum einstaklingum. Ég hef líka setið í stjórnum fjölda almenningshlutafélaga í tveimur heimsálfum og komið að ýmsum viðamiklum verkefnum í mismunandi atvinnugreinum. Ég held að þetta skapi allt ágætis reynslu og ég hlakka til að einhenda mér í að nýta hana í þágu íslensks atvinnulífs eins og ég kann best. Þeir sem þekkja mig vita að ég hef mínar eigin skoðanir og er ekki gerður út af neinum.“

Orri segist hafa kunnað því ágætlega að vinna með Björgólfi Thor. Björgólfur hafi klárlega gert mistök sem hann hafi sjálfur kosið að ræða í þaula á opinberum vettvangi. Hann hafi að sama skapi klárlega gert marga magnaða hluti í viðskiptum í gegnum tíðina.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegu viðtali við Orra Hauksson í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar segir Orri að að atvinnulífið þurfi sjálft að flýta fyrir endurreisn efnahagslífsins en vonast um leið að stjórnvöld flækist ekki of mikið fyrir. Þá fjallar Orri um fyrirhugað átak SI, stöðu atvinnulífsins almennt, samskiptin við stjórnvöld og fleira.