„Þetta er ekki fallegt að sjá. En við viljum hafa efnahagsreikning sem er í takti við raunveruleikann,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Skipta. Tap Skipta á síðasta ári nam rétt tæpum 17 milljörðum króna. Það er fimm sinnum meira tap en árið 2012 þegar það nam 3,4 milljörðum króna. Orri segir sérstakt að sjá svona mikið tap. En maður róist aðeins þegar skoðað er hvernig tapið er til komið.

Tapið skýrist að mestu af virðisrýrnun viðskiptavildar Símans upp á 14 milljarða króna. Síminn var dótturfyrirtæki Skipta í fyrra. Tilkynnt var um miðjan febrúar síðastliðinn að fyrirtækin muni renna saman í eitt. Það sem út af stendur felst í ríflega þriggja milljarða króna niðurfærslu á kröfum á hendur Glitni og 2,6 milljarða króna varúðarniðurfærslu vegna endurákvörðunar skatta.

Viðskiptavild afskrifuð á hverju ári

Orri tekur fram í samtali við VB.is að virðisrýrnunin hafi ekki áhrif á fjárstreymi fyrirtækisins. Niðurfærslan er ekki ný af nálinni í sögu Skipta. Frá árinu 2008 og til 2012 nam virðisrýrnun viðskipdavildar að jafnaði 1,6 til 7,2 milljörðum króna. Samtals nam virðisrýrnunin á þessum árum rétt tæpum 19 milljörðum króna.

Orri bendir á að í kjölfar endurskipulagningar á Skiptum eða frá árinu 2010 hafi verið góður afkomubati hjá félaginu og tekjur vaxið. Hins vegar hafi í fyrra tekið að hægja á vextinum.

„Við vildum endurskoða plönin fyrir næstu ár og bættum við meiri varúð í rekstrarplönin. Þegar það var sett inn í virðisrýrnunarprófið kom þetta út,“ segir hann og bendir á að í stað 45 milljarða króna viðskiptavildar hafi hún verið komin niður í 31 milljarð. Þrátt fyrir mikla virðisrýrnun sé það ásættanlegt, efnahagsreikningurinn orðinn eðlilegri og félagið á því róli sem það ætti að vera. Hann bendir jafnframt á að við fjárhagslega endurskipulagningu Skipta í fyrra þegar lánardrottnar hafi gerst hluthafar hafi orðið til ákveðið markaðsverð á félaginu. Efnahagsreikningurinn nú að lokinni niðurfærslu viðskiptavildar nú sé í takti við það.