Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins, segir gengismuninn í gjaldeyrisviðskiptum vera afar mikinn. Hjá sumum fyrirtækjum hleypur þetta á upphæðum sem nema meira en 10 milljónum á ári.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í fréttaskýringu um gjaldeyrismarkaðinn í Viðskiptablaðinu.

„Við erum þess mjög fylgjandi að Kauphöllin taki upp viðskipti með gjaldeyri vegna þess að þessi markaður ber svolítið merki um einokun,“ segir Orri Hauksson aðspurður um ástandið á gjaldeyrismarkaði.

„Fyrirtæki koma kannski heim með gjaldeyri, segjum pund, en vantar síðan segjum við evrur og það er alltaf á röngum enda þessara viðskipta. Fyrirtækin eru alltaf að selja lágt en kaupa hátt. Bankarnir hafa ekki sýnt sérlega mikið frumkvæði í því að breyta þessu eða því skilning að það þurfi að komast á virkur markaður með gjaldeyri enda kannski ekki þeirra hagsmunir. Þeir hafa þarna einhvers konar fákeppnis- eða einokunarhagnað af gjaldeyrisviðskiptum og staða fyrirtækjanna sem neytenda er afleit. Við erum afar fylgjandi því að það verði tekinn upp virkur gjaldeyrismarkaður eins og kauphöllin hefur sett fram hugmyndir um. Við styðjum það heilshugar.“

Sem fyrr segir er nánar fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.