„Þótt við séum nú í þessu vonda skrúfstykki með þennan gjaldmiðil, föst í gjaldeyrishöftum og ráðaleysi þá hafa þeir þættir sem áður hrjáðu menn hætt að angra þá. Þá eru fréttir af vanda evrunnar ekki aukið vinsældir hennar hér,“ segir Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Hann bendir á að síðast þegar Samtök iðnaðarins könnuðu hug félagsmanna til aðildar að Evrópusambandinu og upptöku evru fyrir um fimm árum þá hafi krónan verið hátt skráð og sveiflast mikið auk þess sem vextir hafi verið mjög háir.

„Þótt krónan sé veik nú og vextir háir að okkar mati, þá gætir stöðugleika í skrúfstykkinu,“ segir hann en bendir á að þegar spurt hafi verið um það í könnuninni um áhrif aðildar að Evrópusambandinu á viðkomandi fyrirtæki þá séu um helmingur óákveðinn.

Orri bætir við að innan ráða Samtaka iðnaðarins séu tæplega 1.400 fyrirtæki af ýmsu tagi og dreifist niðurstöðurnar svolítið eftir því hvar menn eru.

Samkvæmt niðurstöðum könnunar Samtaka iðnaðarins er meirihluti félagsmanna andvígur aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru í stað krónu.

Á meðal þess sem félagsmenn samtakanna voru spurðir í könnuninni var hvort þeir væru hlynntir eða andvígir aðild að Evrópusambandinu. Meirihlutinn, 58,7% sögðust andvíg aðild en 27,4% hlynnt. Afgangurinn, 14%, var hvorki fylgjandi né andvígur aðildinni.

Þá var spurt um hug félagsmanna og fyrirtækja yrði gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu í dag. Niðurstöðurnar eru þær að 53,1% telji líkur á að greiða atkvæði gegn aðild. 

Hér má sjá þróunina á viðhorfum félagsmanna og fyrirtækja sem aðild eiga að Samtökum iðnaðarins. Niðurstöðurnar voru kynntar í morgun.

Niðurstaða í könnun Capacent fyrir Samtök iðnaðarins
Niðurstaða í könnun Capacent fyrir Samtök iðnaðarins
© Aðsend mynd (AÐSEND)