Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagði í ræðu sinni á iðnþingi í dag að stefnumótun til langs tíma væri nauðsynleg en án framkvæmdar væri hún lítils virði.

„Kannski má orða það sem svo að okkur skorti skammtímahugsun. Sóknaráætlun 2020 er býsna snoturt plagg. En án innleiðingar og eftirfylgni, er hún bara það, býsna snoturt plagg,“ sagði Orri. Það sama ætti við um ýmsar fleiri áætlanir.

Í lokaerindi Iðnþings í dag kom Orri víða við og sagði m.a. að nú væri komin tími framkvæmda á ótal sviðum og gerði peningamál, menntamál, framkvæmdir og samskipti við stjórnvöld að umtalsefni. Orri telur mikilvægt að ræða miklu nánar hagstjórn næstu ára.

“Við hjá Samtökum iðnaðarins teljum að Ísland eigi að uppfylla Maastricht skilyrðin svo fljótt sem auðið er. En við þurfum við að ganga lengra í sjálfsaga. Við eigum að taka upp sérstaka reglu varðandi opinber fjármál, svo þau vaxi ekki úr takti við framleiðni í landinu og skemmi fyrir peningamálastjórnun, eins og raunin varð einmitt. Við þurfum líka að þróa verðtrygginguna áfram, svo jafngreiðslufyrirkomulag húsnæðislána dragi ekki allt bit úr vaxtabreytingum Seðlabanka.“