Afstaða Samtaka iðnaðarins (SI) til Evrópumála hefur verið öllum ljós og samtökin hafa um árabil beitt sér af miklum krafti fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Aðspurður um hvort vænta megi breytinga á stefnu samtakanna með ráðningu nýs framkvæmdastjóra segir Orri Hauksson, nýráðin framkvæmdastjóri SI að stefna samtakanna sé mótuð á iðnþingi á ári hverju. Ráðning nýs framkvæmdastjóra breyti þar engu um.

En þú hlýtur að hafa einhverja skoðun á því sjálfur?

„Já, mín skoðun á þessu máli er byggð á praktískri nálgun,“ segir Orri.

„Það er aðildarumsókn í gangi og ákveðinn ferill sem fylgir því. Það veit enginn hvenær honum lýkur eða hvernig en á meðan hann er í gangi þá er skylda þessara samtaka að reyna að gæta að hagsmunum iðnaðarins og atvinnulífsins á Íslandi eins og hægt er.“

Orri segir að öllum sé ljóst að Ísland sé ekki að fara að breyta ESB. Flestum sé ljóst hvað það þýði að standa utan ESB og hvað það þýði að standa innan þess.

„Hins vegar eru útfærsluatriði sem í stóra samhenginu fyrir þjóðina í heild breyta ekki endilega miklu, en skipta sköpum fyrir ákveðna hópa,“ segir Orri.

„Þeim atriðum þurfum við að vera vakandi yfir og berjast fyrir, t.d. tollum varðandi innflutning á súráli, ýmis leyfismál, hugverk og margt annað sem getur verið mikilvægt fyrir ákveðnar greinar en sem verka kannski ekki sem lykilatriði þegar á heildina er litið. Þannig að okkar starf er mjög árangurs- og hnitmiðað í þessu ferli.“

En starf og áróður SI hefur verið meira en praktískur hingað til. Munum við sjá blaktandi Evrópufána á næsta iðnþingi eins og síðustu ár?

„Eins og ég sagði áður þá mun stefna þessara samtaka ekki breytast við komu nýs framkvæmdastjóra,“ segir Orri og brosir.

„Hins vegar vinnum við hérna frá degi til dags á þann hátt sem ég lýsti hér áðan. Við erum fyrst og fremst að gæta hagsmuna okkar félagsmanna, iðnaðarins og atvinnulífsins hvað best við getum. Það á við í öllu þessu ferli, hvernig sem því lýkur og hvenær sem því lýkur.“

Nú benda skoðanakannanir til þess að ef kosið yrði í dag myndu Íslendingar hafna aðild að ESB. Menn hafa samt verið með ýmsar yfirlýsingar um nauðsyn þess að fara inn og þar fram eftir götunum. Í framhaldi af því er eðlilegt að spyrja, hversu mikið er undir í þessum viðræðum?

„Það er mismunandi á milli starfsgreina. Sumar leggja mikið upp úr því að fara inn en aðrar eru alfarið á móti eins og við þekkjum,“ segir Orri.

„En ég verð að ítreka, okkar verkefni hér er að vinna eins vel út úr hverri stöðu og hægt er fyrir atvinnulífið og hagvélina. Nú er staðan þannig að við erum utan ESB en í umsóknarferli. Í því ferli munum við passa að hagsmunir okkar aðildarfélaga komist til skila. Hvort sem við förum inn eða ekki þá munum við vinna úr þeirri stöðu eins vel og hægt er. Í Evrópumálum og öllum öðrum alþjóðamálum er mikið rými fyrir lausnamiðun og pragmatisma á þessu landi.“

Nánar er rætt við Orra í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar segir Orri að að atvinnulífið þurfi sjálft að flýta fyrir endurreisn efnahagslífsins en vonast um leið að stjórnvöld flækist ekki of mikið fyrir. Þá fjallar Orri um fyrirhugað átak SI, stöðu atvinnulífsins almennt, samskiptin við stjórnvöld og fleira.