Símann og fleiri fjarskiptafyrirtæki hafa lært mikið af því þegar erlendur netþrjótur braust inn á vefsíðu Vodafone í fyrravetur og stal þar persónulegum upplýsingum notenda.

„Þetta var mikil lexía, sérstaklega fyrir mig,“ segir Orri Hauksson, sem var nýtekinn við sem forstjóri Skipta, nú Símans, þegar brotist var inn hjá Vodafone. Hann segir það helst hafa komið ánægjulega á óvart hvað viðbragðsáætlun Símans var fumlaus og skýr. „Það var aðdáunarvert hvernig allir fóru í sín hlutverk og goggunarröðin skýr. Hver og einn vissi hvað hann átti að gera. Þetta var góð prófraun að fara í gegnum, líkast doktors- prófi í öryggismálum. En allt hélt þetta hjá okkur. Samt hertum við á öllu,“ segir Orri. Árás var gerð á Símann á sama tíma og Vodafone og frá sama svæði. Af þeim sökum sé gert ráð fyrir að um sama aðila sé að ræða.

Orri segir nokkuð algengt að gerð sé tilraun til að brjótast inn í tölvukerfi Símans. Þær tilraunir hafa fram til þessa engu skilað.

Ráða fólk til að brjótast inn í tölvukerfið

„Þetta eru í einhverjum tilvikum nokkurs konar prakkarar sem vilja láta vita af því hvert þeir komust. Það er mjög algengt að reynt er að fikta sig inn, erlendir sem íslenskir. Þeir fá prik í sínum hópi ef þeir komast inn og skilja merki um að Vader, c0mrade eða Kalli2000 hafi komist inn í kerfið,“ segir Orri og bætir við að mesti kostnaðurinn felist í kostnaði Símans við að tryggja kerfið. Þar á meðal eru fyrirtæki og einstaklingar sem sem Síminn hefur ráðið sérstaklega til að reyna að brjótast inn í kerfið. „Við teljum að við höfum mjög skýra sérstöðu á fjar- skiptamarkaði þegar kemur að öryggismálum,“ segir Orri. „Við finnum sterkt fyrir því að viðskiptavinir hafa á undanförnum mánuðum lagt aukna áherslu á að þessir hlutir séu í lagi.“

Rætt er við Orra Hauksson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .