Enn sem komið er hefur skjálftinn á alþjóðlegum fjármálamörkuðum ekki haft mikil áhrif á íslenskan iðnað og útflutning, segir Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. „Eftirspurnin eftir okkar helstu útflutningsvörum, fiski, áli, hátæknivöru og þjónustu, hefur ekki dregist saman en það er auðvitað erfitt að spá fyrir hvernig markaðirnir munu þróast þegar fram í sækir. Ef mikið verðfall á hlutafé víða um lönd og skjálfti á fjármálamörkuðum almennt, verður að efnahagslegri kreppu þvert á landamæri þá má telja öruggt að hún muni hafa áhrif hér á landi.“

Síðustu ellefu viðskiptadaga á mörkuðum hafa hlutabréf fallið um tæplega 17%. Þessu hefur fylgt hröð tilfærsla á fjármagni yfir í aðrar fjárfestingar. Í dag hafa markaðir tekið lítið eitt við sér, hafa víða hækkað um rúmlega eitt prósent þegar þetta er skrifað.

Óvissu hefur ekki verið eitt þegar kemur að fjármálamörkuðum heimsins. Þar vegur þyngst miklar opinberar skuldir ríkja í Evrópu, einkum sunnanverðri álfunni. Fjárfestar horfa ekki síst til Grikklands, Ítalíu, Spánar og Portúgal í því samhengi. Stóra spurningin er; hvernig á að borga himinhár skuldir til baka?

Sama spurning er undirliggjandi þegar kemur að áhyggjum fjárfesta í Bandaríkjunum eftir að matsfyrirtækið S&P lækkaði lánshæfismat landsins niður um einn flokk, úr AAA í AA+. Orri segir að íslensk fyrirtæki hafi í einhverjum tilvikum fundið fyrir fjármögnunarvandræðum á Evrópumarkaði, en það sé óverulegt enn sem komið er. Þá hafi íslenskir lífeyrissjóðir þegar fundið fyrir verðlækkun í sínu erlenda eignasafni.

Orri segir að íslensk fyrirtæki þurfi öðru fremur að reyna að hlúa að sinni framleiðslu og afhenda góða vöru til viðskiptavina sinna. „Á meðan markaðsaðstæður breytast ekki þeim mun meira frá því sem nú er, sem auðvitað alls ekki hægt að útiloka, þá einblína fyrirtæki í útflutningi hér á landi fyrst og fremst á það að halda sinni starfsemi stöðugri og góðri. Hins vegar ef til kemur mikill slaki í eftirspurn á alþjóðamörkuðum, t.d. á næstu mánuðum, þá getur það haft neikvæð áhrif á íslenska hagkerfið með margvíslegum hætti.“