Ingvi Hrafn Jónsson
Ingvi Hrafn Jónsson
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)
Ingvi Hrafn Jónsson sagði sig úr stjórn Verndarsjóðs villtra laxastofna, þar sem Orri Vigfússon er formaður. Í bréfi sem birtist á Vötn og veiði sagði Ingvi að frá hans sjónarhóli hafi NASF gengið til liðs við vinstri græna í málefnum Þjórsár, sem muni hugsanlega árum saman dæma þúsundir Íslendinga til áframhaldandi eymdar atvinnuleysis. Þjórsá verði aldrei annað en nytjafljót nokkurra netbænda og þar verður að hans mati aldrei stunduð laxveiði á stöng.

Aðspurður um þetta í samtali við Viðskiptablaðið er Orri tregur til svars. Þeir Ingvi Hrafn hafi lengi verið samherjar og heimilisvinir hjá hvor öðrum frá árinu 1948. „Ég vil ekki tjá mig neitt um það. Ingvi Hrafn hefur sínar skoðanir og mínar eru frábrugnar hans skoðunum,“ segir Orri. Hann sé ekki vinstri grænn enda unnið til virtra umhverfisverðlauna fyrir að beita lögmálum markaðarins til að ná markmiðum um verndun laxastofnsins.