Gengi hlutabréfa í Nordea, stærsta banka Norðurlanda, hækkuðu um rúmlega tvö prósent í kjölfar þess að fréttir bárust af því að framkvæmdastjóri fjármálasviðs bankans, Arne Liljedahl, hefði staðfest það á fjárfestingaráðstefnu í New York í gær að fjárfestingar- og vogunarsjóðir hefðu sett sig í samband við Nordea vegna sölu sænska ríkisins á 19,9% hlut í bankanum.

Talsmaður Nordea, John Ekwall, sagði hins vegar síðar um daginn að of mikið væri gert úr orðum Liljedahl: "Hann var spurður um söluferlið á bankanum. Hann svaraði því til að við yrðum varir við mun meiri áhuga frá markaðinum en áður. Við fáum fleiri spurningar í dag heldur en við fengum fyrir nokkrum mánuðum varðandi söluferlið." Að sögn Ekwall væri það ekki raunin að einhverjir ákveðnir aðilar hefðu verið í sambandi við þá, enda væru það stjórnvöld sem hefðu yfirumsjón með söluferlinu en ekki bankinn sjálfur.

Viðskiptablaðið Affärsvärlden greindi frá því á mánudaginn að bandaríski bankinn Citigroup og einkafjárfestingarsjóðurinn Kohlberg Kravis og Roberts (KKR) hefðu leitað til sænskra stjórnvalda vegna kaupa á hlutnum í Nordea.