Hópur einkafjárfestingarsjóða, sem bandaríski sjóðurinn Providence Equity Partners fer fyrir, er að íhuga 7,5 milljarða punda tilboð í Virgin Media Inc. Þetta kemur fram í frétt breska blaðsins The Observer á sunnudaginn, án þess að blaðið vitni sérstaklega til heimildarmanna sinna.

Í frétt blaðsins segir að þeir einkafjárfestingarsjóðir sem Providence sé að ræða við um að koma að tilboðinu séu Blackstone Group, Kohlberg Kravis Roberts & Co og Cinven Group. Tilboð í Virgin gæti borist á næstu vikum og hyggjast einkafjárfestingarsjóðirnir færa sér í nyt hið hlutfallslega lága verð sem er á gengi hlutabréfa breska félagsins.