Líkt og annars staðar í heiminum lækkuðu hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum í dag en þó lækkunin hafi ekki verið jafn mikil og í Asíu og Evrópu hafa markaðir vestanhafs nú ekki verið lægri í þrjá mánuði að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Viðmælendur Bloombeg eru sammála um að, líkt og í Evrópu í dag séu það auknar áhyggjur fjárfesta af frekari þjóðnýtingu banka valdi lækkun hlutabréfa.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 0,1% en hafði þó lækkað um rúm 1,5% fyrr í dag. Dow Jones lækkaði um 1,3% og S&P 500 um 1,1% en báðar höfðu þær einnig lækkað meiri fyrr í dag. Þá hefur S&P 500 lækkað um 6,5% í vikunni.

Líkt og áður segir voru það fjármálafyrirtæki sem drógu niður markaði í dag. Þannig höfðu Bank of America og Citigroup lækkað um rúm 36% í um hádegi (á New York tíma) en ruku upp aftur eftir að fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti að í næstu viku myndi það skýra frekar hvað nákvæmlega björgunaraðgerðir yfirvalda ganga út á í smáatriðum. Við það ruku fyrrnefndir bankar ásamt öðrum fjármálafyrirtækjum upp og enduðu flest þeirra nokkurn veginn á pari frá opnun.

Ekki skemmdi fyrir þegar Kenneth Lewis, forstjóri Bank of America sendi frá sér tilkynningu þar sem hann ítrekaði að allar vangaveltur um mögulega þjóðnýtingu bankans væru reistar á sandi og tók í leiðinni fram að bankinn þyrfti ekki á frekar aðstoð eða á neyðarlánum að halda frá yfirvöldum.

Hann sagði þó að yfirvöld gætu þurft að þjóðnýta minni fjármálastofnanir, en þó bara í stuttan tíma. Robert Gibbs, talsmaður Hvíta hússins sagði þó að bankarekstur væri betur kominn í höndum einkaaðila en yfirvalda og því væri þjóðnýting síðasti kostur yfirvalda. Ef til þess kæmi yrði það gert með því markmiði að selja bankana aftur.

Verð á gulli hækkaði lítillega í dag en gaf eftir undir lok dags. Við lok markaða í New York kostaði únsan af gulli 994,7 Bandaríkjadali og hafði þá hækkað um 1,9% frá opnun markaða. Hins vegar hafði únsan farið yfir þúsund dali í stuttan tíma í dag þar sem fjárfestar í Evrópu voru að losa sig við hlutabréf og fjárfestu nokkuð í gulli í staðinn.

Olíuverð lækkaði hins vegar lítillega eftir mikla hækkun gærdagsins og kostaði tunnan af hráolíu við lok markaða í New York 39,83 dali og hafði þá lækkað um 0,9% frá opnun markaða.