Hlutabréf í færeyska olíu- og gasleitarfélaginu Faroe Petroleum tóku flugið í Kauphöllinni í Lundúnum fyrir helgi eftir að breska olíuleitarfélagið Dana Petroleum jók eignarhlut sinn í Faroe upp í 24,2%. Í Hálffimm fréttum Kaupþingsa segir að Faroe Petroleum sé nú metið á 23,5 milljarða króna. Samkvæmt Daily Telegraph hafa félögin starfað náið saman og var forstjóri Faroe, Graham Stewart, eitt sinn fjármálastjóri Dana. Gengi Faroe Petroleum hækkaði um rúm 15% á föstudaginn vegna þessara frétta en sveiflaðist töluvert í dag eftir að félagið greindi frá því lokið hefði verið við þróunarvinnu á Wissey-svæðinu með góðum árangri. Búist er við að gasframleiðsla á svæðinu verði komin á fullt undir lok þessa árs.

Meira tap Atlantic en reiknað hafði verið með Atlantic Petroleum, færeyska olíuleitarfélagið sem er skráð í Kauphöll Íslands, birti ársuppgjör sitt fyrir helgi. Tap félagsins á síðasta ári nam 76 milljónum danskra króna (einn milljarður króna) sem var umtalsvert meira en fyrirtækið sjálft hafði áætlað á þriðja ársfjórðungi. Félagið spáði þá um 55 milljóna DK tapi og skýrist frávikið einkum af óhagstæðri gengisþróun pundsins undir lok síðasta árs. Tap á fjórða ársfjórðungi nam 25,6 milljónum DK (335 m. króna) og sautjánfaldaðist á milli ára. Atlantic er enn án tekna en búist er við að þær taki að streyma inn á öðrum ársfjórðungi ársins, samkvæmt því sem segir í Hálffimm fréttum Kaupþings.