Hlutabréf í dönsku ölgerðinni Royal Unibrew, sem er annar stærsti drykkjarvöruframleiðandinn á Norðurlöndunum og FL Group á 24,4% hlut í, hafa hækkað um 4,3% í dag og er fyrirtækið hástökkvari dagsins í kauphöllinni í Kaupmannahöfn, segir í frétt á vefsíðu danska viðskiptablaðsins Børsen.

Ástæður þess eru taldar orðrómur um hugsanlega yfirtöku Heineken á fyrirtækinu. Í morgun sagði Viðskiptablaðið frá því að Royal Unibrew hefði ákveðið að brugga Heinekenbjórinn í Danmörku en fyrirtækið hefur haft umboð fyrir Heineken í Danmörku frá árinu 2003.

Paul Møller, forstjóri Royal Unibrew, þvertekur í samtali við Børsen fyrir að eitthvað sé til í þeim orðrómi að Heineken hafi í hyggju að yfirtaka fyrirtækið.