Fyrir milligöngu Íslandsbanka hafa tekist samningar um að Þórsmörk ehf. eignist útgáfufélagið Árvakur hf. með yfirtöku skulda og nýju hlutafé.

Þórsmörk ehf. er í eigu Óskars Magnússonar en hluthafar með honum verða Gísli Baldur Garðarsson, Guðbjörg Matthíasdóttir, Gunnar B. Dungal, Pétur H. Pálsson, Þorgeir Baldursson og Þorsteinn Már Baldvinsson.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka en þar er greint frá því að til að dreifa eignaraðildinni enn frekar er ráðgert að fleiri hluthafar komi til liðs við félagið á síðari stigum. Við kaupin færist hlutafé fyrri eigenda niður í núll.

Formlegt söluferli hófst með auglýsingu þess efnis 27. janúar sl. og hefur Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka annast ferlið fyrir hönd Árvakurs.

Í tilkynningunni kemur fram að þrjú skuldbindandi tilboð bárust í útgáfufélagið föstudaginn 20. febrúar s.l. Tilboðin voru opnuð í viðurvist Margretar Flóvenz, löggilts endurskoðanda og meðeiganda hjá KPMG, en allir tilboðsgjafar höfðu samþykkt að Margret yrði viðstödd opnun tilboða sem óháður eftirlitsaðili.

„Við opnun tilboða kom í ljós að Þórsmörk ehf. átti hæsta tilboð, tilboð Palumbo holdings ehf., í eigu Steve Cosser og Everhard Visser var næst hæst en tilboð Almenningshlutafélagsins ehf., kom þar á eftir,“ segir í tilkynningunni en samkvæmt henni nam munurinn á hæsta og næsthæsta tilboði án fyrirvara 200 milljónum króna.

Gengið verður til samninga við stærstu kröfuhafa Árvakurs um skuldir félagsins á næstu dögum og gefa samningsaðilar sér fáeinar vikur til að ljúka samningum.