Þorsteinn M. Jónsson, er orðinn starfandi stjórnarformaður Vífilfells og segir í samtali við Viðskiptablaðið í dag eð nú sé svigrúm til að sinna viðskiptaþróun fyrirtækisins. Þorsteinn hefur starfað sem forstjóri félagins í níu ár og á hann 74% hlut í fyrirtækinu. "Við erum búnir að vera í stefnumörkunarvinnu og fyrirtækið er í góðum málum," sagði hann.

Þorsteinn segir fyrirtækið fjárhagslega vel burðugt til að stækka en vill ekki tjá sig frekar um hvað framundan sé. Samkvæmt Frjálsri Verslun er velta Vífilfells um fjórir milljarðar og er fyrirtækið stærst á markaði fyrir bjór, gos og safa. Á síðasta ári byrjaði Vífilfell einnig að selja vín en hann segir vínsöluna vera viðbót við starfsemina sem fyrir er og vera að skila góðum rekstri.

Fyrirhugað var að skrá félagið á markað fyrir nokkrum árum en það gekk ekki eftir og segir Þorstein það ekki á döfinni. "Ekki er stefnt að skráningu félagsins að óbreyttu því að það er ekki nægjanlega stórt," segir hann. Einnig segir hann fyrirtækið ekki vera til sölu og að það hafi ekki verið það.

Árni Stefánsson, sem verið hefur annar tveggja framkvæmdastjóra markaðs- og sölusviðs, verður forstjóri Vífilfells. Guðjón Guðmundsson verður framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs.

Árni hefur unnið fyrir Vífilfell í rúm 6 ár, fyrst sem vörumerkjastjóri en síðan sem annar tveggja framkvæmdastjóra markaðs- og sölusviðs.

Guðjón hefur starfað fyrir Vífilfell í tæp 6 ár, fyrst sem vörumerkjastjóri en síðan sem annar tveggja framkvæmdastjóra markaðs- og sölusviðs.

Þorsteinn á 74% í Vífilfelli en hann keypti fjórðungs hlut af KB banka á síðasta ári. Hekla á 15% og Sigfús R. Sigurðsson og TM afganginn.

Stjórn Vífilfells skipa auk Þorsteins þeir Sigfús R. Sigfússon og Tryggvi Jónsson. Fráfarandi stjórn var skipuð þeim Sigfúsi R. Sigfússyni, stjórnarformanni, Hreiðari Má Sigurðssyni, Gunnari Felixsyni, Guðrúnu Pétursdóttur og Ted Highberger.

Sjá Viðskiptablaðið í dag.