Þorsteinn Bjarnason hefur tekið til starfa sem forstöðumaður vöruhúsaþjónustu hjá Eimskip. Starfsemin felur í sér rekstur allra vöruhúsa Eimskips á Sundahafnarsvæðinu, þ.m.t. frysti- og kæligeymslu segir í frétt frá félaginu.

,,Úthýsing birgðahalds hefur sannað sig sem valkostur á íslenskum markaði," segir Þorsteinn. ,,Framtíðarsýnin er að gera úthýsinguna að fyrsta valkosti fyrirtækja þegar þau standa frammi fyrir ákvörðun um hvernig staðið skuli að birgðahaldsmálum."

Þorsteinn kemur til Eimskips frá Danmörku þar sem hann hefur verið framkvæmdastjóri vöruhúsareksturs hjá Brødrene A&O Johansen A/S í Kaupmannahöfn frá desember árið 2001. Á árunum 1995-2000 gegndi Þorsteinn starfi verkefnastjóra við þróun og hagræðingu lagerreksturs hjá Nomeco þar sem meðal stærstu verkefna má nefna uppbyggingu á nýju vöruhúsi og stækkun vöruhótels fyrir lyfjaframleiðendur.

Þorsteinn lauk námi í rekstrartæknifræði frá Odense Teknikum árið 1986 og síðar gráðu af sviði tölvu- og fjármálastjórnunar frá Handelshøjskolen í Kaupmannahöfn árið 1998.