Þorsteinn Örn Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri stefnumótunar og viðskiptaþróunar hjá FL GROUP í stað Einars Sigurðssonar. Meðal viðfangsefna sviðsins eru stefnumótun samstæðunnar, nýsköpun og viðskiptaþróun innan sem utan fyrirtækisins.

Þorsteinn Örn hefur starfað hjá FL GROUP í tæpt ár sem forstöðumaður viðskiptaþróunar, en var áður ráðgjafi hjá alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Co. í Skandinavíu og Singapore á árunum 1999 ? 2004 og starfaði sem slíkur í þágu fjölmargra alþjóðlegra fyrirtækja. Þorsteinn Örn lauk mastersprófi (M.Sc.) í byggingaverkfræði frá Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn (DTU) árið 1999. Hann er kvæntur Rósu Karenu Borgþórsdóttur og á þrjú börn.

"Það eru geysilega spennandi tímar framundan hjá FL GROUP. Ekki aðeins í útrásarverkefnum hjá móðurfélaginu heldur eru öll dótturfyrirtækin að vinna að nýsköpun og þróun hvert í sinni atvinnugrein og ég hlakka til að vinna með stjórnendum þeirra að þeim verkefnum", segir Þorsteinn Örn í tilkynningu til Kauphallarinnar í dag.