Stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga hefur ráðið til sjóðsins sérstakan framkvæmdastjóra, sem er Þorsteinn Þorsteinsson rekstrarhagfræðingur. Ráðning sérstaks framkvæmdastjóra er liður í eflingu á starfsemi sjóðsins í samræmi við stefnumörkun um endurskipulagningu sem unnið var að á síðasta ári og hin nýju lög segir í tilkynningu sjóðsins. Eftir sem áður mun skrifstofa Sambands íslenskra sveitarfélaga annast skrifstofuhald fyrir sjóðinn samkvæmt sérstökum þjónustusamningi og mun Birgir L. Blöndal starfa fyrir sjóðinn eins og verið hefur.

Þann 1. janúar sl. tóku gildi ný lög um Lánasjóð sveitarfélaga, nr. 136/2004. Meðal nýmæla í lögunum er að æðsta vald í málefnum lánasjóðsins er flutt frá ríkisvaldinu til sveitarfélaganna og munu svokallaðir eigendafundir fara með það vald, en þeir svara til hluthafafundar í hlutafélagi. Seturétt á eigendafundum lánasjóðsins eiga þeir sem sveitarfélögin hafa kosið sem fulltrúa á landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Með nýju lögunum er einnig stigið stórt skref í aðlögun á starfsemi lánasjóðsins að almennum rekstrarskilyrðum á fjármálamarkaði og mun lánasjóðurinn í framtíðinni starfa sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Meðal annars eru felld út úr lögunum ákvæði um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og ríkissjóði og nákvæm fyrirmæli um hvernig lánveitingum skuli háttað.

Þorsteinn er rekstrarhagfræðingur að mennt og hefur reynslu af vettvangi sveitarfélaganna, sem bæjarstjóri á Sauðárkróki, en lengstan hluta starfsferils síns hefur hann unnið á fjármálamarkaði meðal annars sem framkvæmdastjóri hjá Norræna fjárfestingarbankanum í Helsinki og Búnaðarbanka Íslands í Reykjavík og sem bankastjóri Búnaðarbankans í Lúxemborg.