Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun Þorsteinn M. Jónsson, stjórnarformaður Vífilfells, taka við formennsku stjórnar Glitnis á hluthafafundi bankans sem haldinn verður á morgun en þá verður með öllu skipt um stjórn bankans.

Sjálfkjörið er í stjórn Glitnis en í framboði til aðalstjórnar eru:  Þorsteinn M. Jónsson, Björn Ingi Sveinsson, framkvæmdastjóri Saxbygg, Haukur Guðjónsson, forstjóri Ingvars Helgasonar, Jón Sigurðsson framkvæmdastjóri hjá FL Group, Katrín Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Lýsis, Pétur Guðmundarson, hæstaréttarlögmaður, og Skarphéðinn Berg Steinarsson framkvæmdastjóri hjá Baugi. Lengi vel var talið líklegt að Skarphéðinn yrði formaður bankastjórnar en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var horfið frá því þar sem hann væri of nátengdur Baugi.

Varamenn: Eiríkur S. Jóhannsson, Gunnar Karl Guðmundsson, Jón Björnsson, Kristinn Bjarnason, Kristinn Þór Geirsson, Paul Richmond Davidson og Smári S. Sigurðsson.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur undanfarið verið í skoðun margvíslegar breytingar á starfsemi Glitnir og er hugsanlegt að á morgun verði greint frá sölu einhverra eigna bankans. Ekki mun þó vera um að ræða eignir sem tengjast kjarnastarfsemi hans.