„Þetta er ekki yfirtaka heldur afskráning til þess að geta unnið með félagið áfram – með hag hluthafa að leiðarljósi. Stóra sem smáa,“ segir Þorsteinn Vilhelmsson, stjórnarformaður Atorku Group, í samtali við Viðskiptablaðið.

Atorka Group óskaði eftir afskráningu í byrjun vikunnar.

Í tilkynningu segir í ljósi markaðsaðstæðna eru skilyrði fyrir rekstri skipulegs verðbréfamarkaðar á Íslandi naumast fyrir hendi og við þær forsendur geti eðlileg verðmyndun ekki átt sér stað með hlutabréf.

Félagið hefur lækkað um 90% frá áramótum, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Markaðsvirðið er tveir milljarðar króna. Samkvæmt upplýsingum frá Genius Mentis eru 4.901 hluthafar í Atorku Group.

Spurður hversvegna smærri hluthafar voru ekki keyptir út svarar Þorsteinn að honum finnist ekki sanngjarnt gagnvart þeim að bjóða það verð sem nú er á markaði – jafnvel þó reitt væri fram yfirverð.

Þorsteinn segist hafa mætt miklu skilningi frá hluthöfum vegna afskráningarinnar. Það sé verið að verja hag þeirra fyrir frekari gengisfalli á erfiðum tímum á fjármálamörkuðum.

Hann útilokar ekki, þegar aðstæður verði betri á hlutabréfamarkaði, að skrá félagið aftur. Spurður hvort minni hluthafar verði keyptir út þegar aðstæður á mörkuðum batna svarar hann: „Það hefur ekki verið tekið nein ákvörðun um það enn þá.“