Hagnaður Securitas jókst um 32,9% á síðasta ári eða úr 158 milljónum króna árið 2019 í 210 milljónir. Á sama tímabili jókst velta félagsins um 34 milljónir króna og var 5,97 milljarðar í lok árs. Þetta kemur fram í samstæðureikningi félagsins.

Laun og gjöld þeim tengd voru stærsti kostnaðarliður félagsins en sá kostnaður lækkaði þó úr 3,86 milljörðum króna í 3,63 milljarðar á árinu í reikningnum kemur fram að heimsfaraldurinn hafi haft töluverð áhrif á reksturinn, einna helst á fyrsta og öðrum ársfjórðungi ársins 2020. Félagið sinnti verkefnum á Keflavíkurflugvelli en þau lögðust af þegar að yfirvöld gripu til ferðatakmarkanna og landinu var lokað.

Á árinu var kostnaðarverð seldra vara 736 milljónir króna, stjórnunarkostnaður var 344 milljónir og almennur rekstrarkostnaður var 638 milljónir. Eignir félagsins námu 2,8 milljörðum, eigið fé var 786 milljónir og eiginfjárhlutfall var því um 28,1%. Útgreiddur arður á árinu nam 150 milljónum líkt og árið áður.

Securitas á þrjú félög að fullu. Þau eru fasteignafélagið Vari ehf., geymsluþjónustan Geymslur ehf. og bílastæðaþjónustan Parking Plus ehf. Þá var rekstur flotastýringarþjónustunnar Arctic Track ehf. sameinað við rekstur Securitas á árinu sem leið.

Þá stendur félagið í málaferlum en félaginu Geymslur ehf. var stefnt af viðskiptavinum þess sem kröfðust skaðabóta vegna bruna í geymsluhúsnæði félagsins í Miðhrauni 4 árið 2018. Geymslur ehf. var sýknað af öllum kröfum í bæði héraðs- og landsdómi en áfrýjunarleyfi fékkst hjá Hæstarétti á þessu ári.

Framkvæmdastjóri Securitas er Ómar Svavarsson og meirihlutaeigandi þess er Kristinn Aðalsteinsson sem á 56,4% hlut.