Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn hefur samið við Skýrr um gagnastýringarlausn á sviði hýsingar. Samningurinn felur meðal annars í sér hýsingu fyrir þá starfsemi safnsins er lýtur að afritun þess á íslenskum vefsvæðum eins og segir í tilkynningu.

Safnið afritar í dag með reglubundnum hætti öll vefsvæði sem hafa .is-endingu og einnig önnur íslensk vefsvæði. Skýrr hýsir þann vélbúnað er geymir afrit af umræddu vefsafni.

Afritun vefsafns Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns fer fram gegnum öruggt gagnasamband milli og Skýrr og safnsins á háhraðaneti. Við undirbúning samstarfsins var lögð mikil áhersla á áreiðanleika, einfeldni og sjálfvirkni lausnarinnar.

"Skýrr er leiðandi aðili á markaði gagnastýringar, afritunar, hýsingar og öryggislausna á sviði upplýsingatækni. Við teljum okkur í öruggum höndum hjá fyrirtækinu og leggjum mikið upp úr hnökralausu samstarfi,” segir Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður.

“Hýsingarþjónusta Skýrr kallar á hátt öryggisstig, órofinn uppitíma 24/7 og mikinn áreiðanleika. Til að standast þessar kröfur höfum við árum saman fjárfest markvisst í jafnt búnaði sem þekkingu á sviði gagnastýringar, afritunar og hýsingar.  Þessi samningur við safnið er gott dæmi um að viðskiptavinir okkar kunna vel að meta þessa uppbyggingu. Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn er metnaðarfullt og framsækið á sviði upplýsingatækni og afar kröfuharður viðskiptavinur. Það er spennandi verkefni að veita safninu fyrsta flokks þjónustu," segir Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr.