Í fyrra var tæplega helmingi alls sláturfjár á landinu lógað í þremur sláturhúsum á Norðurlandi vestra og hefur hlutur þeirra vaxið um 17% frá 2003. Nær annar hver dilkur sem bíður örlaga sinna í sláturhúsum á haustin fer um sláturhúsin á Norðvesturlandi. Þetta er athyglisvert og sýnir eftirtektarverða þróun, sagði Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á 15. ársfundi Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um síðustu helgi.

Í ræðu ráðherra kom fram að frá því að sláturhúsin á Norðurlandi vestra urðu aðeins þrjú hafa þau öll aukið hlut sinn á landsvísu í sauðfjárslátrun, mismikið þó. Sláturhúsin eru öll staðsett innan tiltölulega lítils radíuss á Norðvesturlandi. Sölufélag Austur-Húnvetninga eða SAH Afurðir ehf. hafa aukið sýnu mest við sig. Árið 2003 var slátrað þar tæplega 66 þúsund fjár eða sem nam 11,8% á landsvísu. Í fyrra voru það liðlega 87 þúsund fjár og 16,3% landsframleiðslunnar. Á sama tíma jókst hlutur Kaupfélags Skagfirðinga um ríflega tvö prósentustig og nam í fyrra 19,7%. Hjá Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga er breytingin lítil á þessum fjórum árum. Þar hefur verið lógað um og yfir 12% sláturfjár á ári, eða sextíu og eitt til sextíu og sjö þúsund kindum.