Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, sækist eftir endurkjöri til Alþingis og stefnir að forystusæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi í prófkjörinu sem fram fer 12. til 14. mars næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þórunni.

„Íslendinga bíður stærsta og mikilvægasta verkefni frá stofnun lýðveldisins, endurreisn samfélags á grunni jafnaðarstefnunnar,“ segir Þórunn í tilkynningunni.

„Sú endurreisn verður að byggja á jafnrétti, stjórnfestu og heiðarlegum vinnubrögðum. Þjóðin þarf að ná samstöðu um ný gildi, og á grundvelli þeirra þarf að setja íslenska lýðveldinu nýja stjórnarskrá á stjórnlagaþingi. Endurreisn samfélagsins krefst þess einnig að konur séu kallaðar til áhrifa og valda til jafns á við karla.“

Hún segir hina dýrkeyptu lexíu bankahruns og kreppu blasir við.

„Hagkerfi sem byggist á takmarkalausri þenslu, græðgi og virðingarleysi gagnvart auðlindum landsins er ekki lífvænlegt,“ segir Þórunn.

„Framtíð okkar býr í græna hagkerfinu, jöfnum hagvexti og sjálfbærum lausnum í efnahags- og atvinnumálum sem hafa hagsmuni barna okkar og barnabarna að leiðarljósi. Innleiðing græna hagkerfisins krefst viðsnúnings í aðferðafræði og nýrra verkfæra – áherslu á fjölbreytt atvinnulíf, fyrirhyggju, sanngirni og jöfnuð.“

Þá segir Þórunn:

Forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar, að loknum alþingiskosningum, er að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Aðildarsamninginn ber að leggja undir þjóðaratkvæði. Ísland á samleið með ríkjum Evrópu. Hagsmunum okkar á sviði efnahags, viðskipta, mennta og menningarmála er best borgið í samvinnu fullvalda ríkja innan Evrópusambandsins. Einangrun er ekki kostur. Náin samvinna við önnur ríki er forsenda þess að öflugt og skapandi atvinnu- og efnahagslíf þróist og dafni hér á landi til langrar framtíðar.

Í landsmönnum býr mikill auður og kraftur. Hann ber að virkja til uppbyggingar betra og réttlátara samfélags, þar sem verðleikar fólks fá að njóta sín án tillits til stéttar eða stöðu.

Samfylkingin í Suðvesturkjördæmi hefur ákveðið að bjóða fram fléttulista í alþingiskosningunum 25. apríl nk. Í ljósi þess bið ég um stuðning í 1. til 2. sæti framboðslistans í stuðningsmannaprófkjörinu 12. til 14. mars 2009.