Þórður Birgir Bogason hefur keypt fyrirtækið Parket & Gólf af fjölskyldu Ómars Friðþjófssonar, stofnanda fyrirtækisins að því er kemur fram í tilkynningu. Þar kemur fram að Parket & Gólf hefur verið leiðandi á gólfefnamarkaði í meira en tvo áratugi og byggir á traustum grunni en verslunin, sem er til húsa í Ármúla 23, var fyrst opnuð 1985.

Parket & Gólf selur parket, hurðir, flísar og innveggjaefni frá þekktum framleiðendum eins og Hörning, Hakwood, Parador, Lebo og Upofloor sem allir gera miklar kröfur til sölu- og þjónustuaðila sinna um allan heim. Parket & Gólf hefur tekið þátt í fjölda skemmtilegra verkefna sl. ár, t.d. á Bessastöðum, í Alþingishúsinu, Höfða, Listasafni Íslands, Seðlabankanum, Valhöll á Þingvöllum, Hótel Borg auk fjölda verkefna fyrir Kaupþing, Glitni og Landsbankann.

Þórður þekkir vel til byggingavörumarkaðarins og segir mörg tækifæri til vaxtar og þróunar fyrir fyrirtæki eins og Parket & Gólf. ?Uppsteypa húsa hefur farið mjög vel af stað á þessu ári og það liggur fyrir að innrétta þarf allt þetta húsnæði. Þá skiptir máli að skipta við trausta fagaðila sem geta haldið settum tímaáætlunum. Parket & Gólf er þekktast fyrir vandað parket og hurðir en við bjóðum einnig nýtt veggjaefni (HDF) sem kemur í stað gifsplatna. Um þessar mundir er verið að stækka sölu- og sýningarrýmið í Ármúlanum og auka vöruúrvalið en við viljum geta veitt viðskiptavinum bestu hugsanlegu aðstöðu við val á efni til innréttinga.?

Starfsmenn Parkets & Gólfs, 15 talsins, starfa allir áfram hjá fyrirtækinu en umfangsmikil sérfræðiþekking á gólfefnum hefur byggst upp hjá fyrirtækinu síðastliðin ár. Auk þess er Parket & Gólf í góðum tengslum við reynda fagmenn sem sjá um lagningu og uppsetningu fyrir viðskiptavini.

Þórður Birgir Bogason er verkfræðingur að mennt. Áður en hann keypti Parket & Gólf starfaði hann sem forstjóri MEST. Þar áður starfaði hann fyrir Samskip í Þýskalandi og Hollandi, samtals í um 10 ár.