Þórður Birgir Bogason hefur verið ráðinn forstjóri Steypustöðvarinnar og mun hann stýra sameinuðu fyrirtæki Steypustöðvarinnar og Merkúr en unnið hefur verið að sameiningu þeirra undanfarið. Sameiginleg velta þessara tveggja félaga á yfirstandandi ári verður um fjórir milljarðar króna og starfsmannafjölda yfir 150.

Að sögn Þórðar verður fyrsta verk hans að stýra sameiningu félaganna. "Félögin eru að þjóna fyrst og fremst fagaðilum úr byggingariðnaði og sameining félaganna gerir okkur kleift af þjóna þeim viðskiptamönnum með enn betri hætti með auknu vöruúrvali og aukinni þjónustu." Þá má geta þess að ákveðið að sameina verkstæði Merkúrs og Steypustöðvarinnar í eitt öflugt verkstæði sem er staðsett að Malarhöfða 10 í Reykjavík.

Áður en Þórður réðist til Steypustöðvarinnar starfaði hann lengst af í erlendri starfssemi Samskipa sem framkvæmdastjóri rekstrarmála auk stuttrar viðkomu hjá Íslandsbanka.