Aðspurður um framtíðarveltu á fyrirtækjaskuldabréfum, sem hefur nánast legið niðri frá bankahruninu í október, segist Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar telja að fyrirtækjaskuldabréfin verði öflugur hluti af markaðnum þegar fram líða stundir.

Þetta segir Þórður í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

„Það verða að öllum líkindum skýrari kröfur um það að skuldabréf séu í rekstrarfélögum og ákveðnir skilmálar til að koma í veg fyrir að aðrir fagaðilar geti breytt fyrirtækinu þannig að þeir sem eigi skuldabréfin sitji upp með eitthvað sem ekkert er á bakvið,“ segir Þórður

„Fyrirtækin þurfa hins vegar að fjármagna sig og ég held að það séu einfaldir hlutir sem fjárfestar þurfa að horfa til. Þeir þurfa að gera kröfu til þess að bréfin séu skráð, það liggi fyrir opinber lýsing og inn í lýsingu sé viðunandi festing hvað varðar breytingar á skipulagi fyrirtækisins. Þar er tvímælalaust ástæða til að hvetja fjárfesta til að fara vel yfir það að öllum atriðum sé haldið til haga. Stórir aðilar, til að mynda lífeyrissjóðirnir, eiga alveg að hafa bolmagn til þess.“

Nánar er rætt við Þórð í Viðskiptablaðinu í dag.