Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segist gera ráð fyrir því að allt regluverk og fjármálaramminn hér á landi verði endurskoðaður í kjölfar bankahrunsins.

„Við hljótum að taka mið af þessari endurskoðun auk þess að skoða sér þá íslensku þætti sem hafa leitt til þess að ástandið var miklu verra hér en annars staðar. Þar er ég sérstaklega að nefna þann þátt sem snýr að því að fjármálastofnanir hér á landi gátu nýtt sér lánveitngar í formi innlánsreikninga - eins og sést með Icesave-reikninganna - með ábyrgð þjóðarinnar. Það gengur auðvitað ekki fyrir Íslendinga að einkaaðilar geti veðsett þjóðina.”

Þórður sagði að það yrði að koma í veg fyrir það með skýrum hætti, hvort sem það er í gegnum eftirlitsstofnanir eða löggjöfina.

„Þetta er mjög stór þáttur í því sem er öðru vísi hjá okkur en víðast annars staðar vegna þessara stóru talna sem koma inn í þetta dæmi hjá okkur.”