Kauphöllin sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem hún áminnti FL Group opinberlega, eins og greint var frjá hér . FL Group sendi í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem félagið segir meðal annars að Kauphöllin hafi enga heimild til að taka ákvörðun um beitingu opinberrar áminningar. Hvergi í reglum Kauphallarinnar, samningum hennar við útgefendur fjármálagerninga, lögum eða reglum sé kveðið á um heimild til handa Kauphöllinni til að áminna útgefendur.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði það að sínu mati ekki vera neinum vafa undirorpið að Kauphöllin hefði heimild til að birta opinbera yfirlýsingu, enda hefði hún margoft gert það áður í sambærilegum málum. „Þetta er einfaldlega spurning um orðalag,“ sagði Þórður. „Opinber yfirlýsing um brot á reglum er að okkar mati einfaldlega áminning. Kauphöllin hefur heimildir til að beita févíti við brotum gegn reglum hennar, en það er auðvitað alltaf matsatriði hve langt á að ganga. Í þessu tilviki ákváðum við að láta yfirlýsingu nægja.“