Þegar blaðamaður Viðskiptablaðsins ýtir á svar um hvort von sé á skráningum í Kauphöllina á næstunni segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar að nú þegar hafi verið tilkynnt að Hagar verði skráð á markað á þessu ári.

Þá hafi Marorka einnig tilkynnt að félagið vilji vera tilbúið fyrir skráningu snemma á næsta ári þó ekki hafi verið tekin ákvörðun um skráningu. Þar sé dæmi um lítið fyrirtæki sem ætti mjög góða möguleika á markaði.

Nánar er rætt við Þórð í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Sá kafli sem hér er birtur rataði ekki í prentútgáfu blaðsins en er birtur hér í heild sinni.   „Ég held að það sé mikill virðisauki fólginn í skráningu," segir Þórður aðspurður um það hvort hann telji það auka trúverðugleika fyrirtækja að skrá sig á markað.

„Ég held líka að minni fyrirtæki á borð við upplýsingafyrirtæki og tæknifyrirtæki ættu að nýta sér það. Það eru mörg fyrirtæki á First North í nágrannaríkjum okkar sem eru ekki stærri en 100-300 milljónir króna í veltu og þau njóta sín á þeim markaði. Ég er viss um að það sama getur gerst hér. Það er ódýrt að skrá sig á First North markaðinn og upplýsingagjöfin er einföld. Hún er um allt sem skiptir máli, það er allt sem er verðmetandi og birtingar uppgjörs tvisvar á ári.“

Heldur þú að strangar reglur um upplýsingaskyldu sé að fæla fyrirtæki frá því að skrá sig?

„Það eru einhverjir sem setja þetta fyrir sig, en ef þú ert með fyrirtæki á markaði þá verða upplýsingar að vera til staðar," segir Þórður.

„Fjárfestirinn verður að hafa aðgengi að öruggum upplýsingum og hann verður að vera undir fjárfestavernd sem felst í því að það geti ekki átt sér stað stór innherjaviðskipti án hans vitneskju. Þess vegna er það algjört lágmark að gefa upp verðmótandi upplýsingar.“

En er skráningarferlið of flókið, er það að fæla menn frá því að skrá sig?

„Skráningarferlið er nokkuð umfangsmikið fyrir þá sem ætla á Aðalmarkaðinn enda eiga menn þá kost á því að skrá sig annars staðar en á Íslandi líka,“ segir Þórður.

„Minnstu fyrirtæki fara ekki í þetta ferli fyrr en þau eru orðin viss um hvert þau vilja stefna og eru komin í ákveðna stærð. En fyrir First North markaðinn er þetta nokkuð einfalt. Þar geta menn byrjað þó þeir séu með lítil fyrirtæki.“

Þú hefur áður rætt um að bankarnir ættu að skrá fyrirtæki sem þeir hafa tekið yfir á markað. Nú hefur það ekki gerst ennþá. Sérðu fyrir þér skráningar á þeim félögum?

„Ég hef rætt þetta við bankastjórana og það kæmi mér mjög á óvart ef þetta gerist ekki fljótlega. Við munum væntanlega sjá skráningar þegar uppgjör fyrir árið 2010 liggur fyrir, jafnvel fyrr,“ segir Þórður.

„Við höfum lagt upp með það að bankarnir skrái eitthvað af þessum fyrirtækjum til að koma ferlinu í gang, auka gagnsæið og í raun og veru til að reyna markaðinn og hvað sé rétt í þeirri kenningu að það sé lítill áhugi meðal fjárfesta. Við erum á því að það sé mikill áhugi.“

En við vitum það ekki fyrr en á reynir, er það?

„Nei, við gerum það ekki,“ segir Þórður.

„En þess vegna erum við nú í því í lífinu að reyna hlutina og koma okkur áfram. Mér finnst mjög gott hljóð í yfirstjórnendum bankanna. Menn hafa hins vegar haldið að sér höndum á meðan beðið var eftir gengisdómnum. Nú er það að skýrast en við eigum eftir að sjá hvernig þau mál verða leyst.“

_____________________________

Nánar er rætt við Þórð í viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .