Búast má við því að skráðum félögum fjölgi á næstu misserum, þ.e. í lok þessa árs og enn frekar á því næsta.

Þetta kom fram í máli Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Kauphallarinnar á hádegisfundi í Háskóla Reykjavíkur í dag en Þórður sagðist vonast til þess að markaðsvirði skráðra fyrirtækja í lok næsta árs yrði um 60% af landsframleiðslu. Markaðsvirði skráðra fyrirtækja nú er um 20%

Til að þetta gangi eftir þurfa stjórnvöld að losa tak sitt af þeim fyrirtækjum sem nú hafa verið tekin yfir, sagði Þórður.

Hann sagði að nauðsynlegt væri að losa fyrirtækin úr höndum ríkisins með einkavæðingu, jafnvel þó ríkið hafi þurft að taka þau yfir vegna þess ástands sem nú ríkir á mörkuðum. Þórður sagði á næstu mánuðum myndu skapast kauptækifæri á Íslandi og nægir peningar væru til í landinu til að fjárfesta.

Þá sagði Þórður að sem betur fær væri vilji til þess meðal stjórnmálaflokka hér á landi að fela einkaaðilum rekstur fyrirtækja en varaði þó við því að ríkið myndi í of langan tíma halda á eignarhlut sínum í þeim fyrirtækjum sem þegar hafa verið tekin yfir.

Hann sagði þó nauðsynlegt að gjaldeyrishömlum yrði aflétt sem fyrst til að mögulegt yrði fyrir erlenda fjárfesta að aðhafast hér á landi.