Það má heyra á Þórði Friðjónssyni, forstjóra Kauphallarinnar, að hann lítur mjög til Norðurlandanna þegar horft er til framtíðar þjóðarskipulags hér á landi.

Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Þórð í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Aðspurður um þetta segir Þórður að ef menn hafi trú á framtíðinni og ef efnahagskerfið hér geti orðið eitthvað í líkingu við það sem gerist á Norðurlöndunum, þar sem öflugur markaðsbúskapur liggur samfara velferðarkerfinu, þá sé nauðsynlegt að hér sé til hlutabréfamarkaður með sambærilegum hætti og er í þessum löndum.

Blaðamaður svarar því þó til að markaðsbúskapur virðist vera skammaryrði í umræðunni í dag og núverandi ríkisstjórn virðist sérstaklega hafa horn í síðu hans.

„Það tala margir um hið norræna haglíkan sem margir telja betri en flest önnur. Það má ætla að flestir hér á landi vilji samsvara sig með einhverjum hætti hinu norræna líkani,“ segir Þórður.

„Við höfum engu að síður áhyggjur af því að við erum með allt öðruvísi hagkerfi sem sakir standa. Við erum í fyrsta lagi með gjaldeyrishöft og eignarhald er allt öðruvísi en annars staðar. Þá eru menn að ræða um sjávarútvegsstefnu sem er mjög brothætt og spurning hversu markaðsvænleg hún er til framlengdar. Þessu til viðbótar erum við með óhemju mikið af pólitískum afskiptum hér á landi. Magmamálið er myndbirting af því og í raun og veru okkur til skammar. Auðvitað verðum við að hafa hérna kerfi sem er sjálfu sér samkvæmt og að erlendir fjárfestar geti treyst því að ákvarðanir séu teknar og staðið við þær. Sá ótrúlegi vandræðagangur sem var í kringum þetta eina mál segir okkur að við þurfum alvarlega að hugleiða hvernig við nálgumst verkefnin.“

Eru menn þá að gleyma markaðsbúskapnum í vegferðinni að hinu norræna samfélagi?

„Mér finnst það já, að menn gleymi honum og áherslan á markaðshlutann sé allt of lítil.“ Ef við horfum til Norðurlandanna og tökum orkugeirann fyrir þá sjáum við hvernig Norðmenn leysa þetta þannig að ríkið á ráðandi stöðu í stærstu orkufyrirtækjunum eins og Statoil. Þar er þriðjungur þó í eigu fjárfesta og gengur kaupum og sölum úti um allan heim. Svipaða sögu má segja um Norsk Hydro. Þar eru þúsundir hluta í eigu fjárfesta. Þetta er svipað í Finnlandi og í Svíþjóð er mikið af einkafyrirtækjum í orkugeiranum. Þetta er ekkert vandamál þarna. En hér hafa menn kosið að gera það að vandamáli og leggja upp með að enginn megi eiga í orkufyrirtæki nema ríkið.“

_____________________________

Nánar er rætt við Þórð í viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .