Í Hálffimm fréttum KB banka í dag gerir forstöðumaður greiningardeildar KB banka, Þórður Pálsson, alvarlegar athugasemdir við Staksteina Morgunblaðsins.

Í Staksteinum Morgunblaðsins í gær birtist stuttur viðtalsbútur við mig úr Blaðinu. Viðtalið í Blaðinu og inngangurinn að því hljóðar svo:

"Þórður Pálsson, yfirmaður greiningardeildar KB-banka, segir að áframhaldandi neikvæð umræða um íslenska banka og hagkerfi muni fyrr eða síðar bitna á þeim og gera þeim erfitt um vik. "Ef þessi neikvæða umræða um íslenska hagkerfið heldur áfram getur það haft slæmar afleiðingar. Ef þetta er ímyndarvandamál sem einskorðast við Ísland og erlendir fjárfestar vilja síður lána íslenskum bönkum þá gæti það jafnvel farið svo að einhverjir bankar flytji höfuðstöðvar sínar úr landi."

Þessi ummæli verða Staksteinum tilefni til nokkurra spurninga og ærið sérstæðrar túlkunar. Staksteinar benda á að upphaf umræðunnar sé að utan og virðast telja sig vera að svara mér. Ég fjallaði ekkert um upphaf umræðunnar í áður vitnuðum orðum, en það hlýtur að teljast augljóst af orðum mínum að ég er að vísa til erlendrar umræðu, enda lesa erlendir bankar og fjárfestar ekki íslenska fjölmiðla.

Höfundur Staksteina spyr næst: "Telur Kaupþing banki sig geta losnað við þessar erlendu umræður með því að flýja land?!" Þessi spurning hlýtur að vekja furðu, jafnvel þótt hún birtist á fullu tungli. Það er ekkert sem gefur tilefni til þessara vangavelta í áður vitnuðum orðum mínum. Það sem ég segi í ívitnuðum orðum er: Ef neikvæð umræða heldur áfram um íslenskt fjármálakerfi mun það augljóslega bitna á samkeppnisstöðu innlendra banka og jafnvel leiða til að einhverjir þeirra flytji úr landi. Hér er vert að hafa í huga í þeirri skýrslu sem greiningardeild Merrill Lynch gaf út, og var einna neikvæðust gagnvart íslensku bönkunum, var lögð áhersla á að greina kerfisbundna áhættu. Sérstökum áhyggjum var lýst vegna ótta um harða lendingu í íslensku efnahagslífi og á símafundi sögðust skýrsluhöfundar einna helst vilja endurskoða mat sitt á íslenskum bönkum ef horfur í íslenska hagkerfinu vænkuðust.

Í viðtalinu við mig kemur ekkert fram um hvort að Kaupþing hafi í hyggju að flytjast úr landi, enda tala ég ekki fyrir hönd stjórnenda bankans. Morgunblaðið hlýtur að gera greinarmun á umfjöllun greiningardeilda banka og stefnu bankanna sjálfra í rekstri sínum, rétt eins og lesendur gera greinarmun á efni Morgunblaðsins og skoðunum Árvakurs. Og rétt eins og við lesum í Viðskiptablaðinu í dag að Merrill Lynch taki þátt í sambankaláni Kaupþings, þrátt fyrir varnaðarorð greiningardeildar Merrill Lynch um íslenska banka.

Hjá mörgum erlendum fjármálastofnunum tíðkast það að takmarka lán til ákveðinna landa eða landsvæða til þess að stýra áhættu. Það hefur lengi verið rætt á fjármálamarkaði að íslensku bankarnir kepptu um sama ?kvótann" því hin erlendu fjármálafyrirtæki hafa ákveðið þak á því hve mikið þau vilja lána til Íslands. Annað sem hefur verið bent á er að við það að fyrirtæki sem skráð er í Kauphöll Íslands flytti úr landi væri það gjaldgengt í erlenda hlutabréfavísitölu s.s. MSCI, sem margir fjárfestar byggja söfn sín á. Á móti vegur að margt er jákvætt fyrir starfsemi fyrirtækja hér á landi s.s. lægri skattar. Hins vegar er mitt mat að ef ókleift verður að fjármagna alþjóðlega banka með höfuðstöðvar á Íslandi sé líklegra að þeir flyttu úr landi fremur en að hverfa aftur til þess að verða milliliðir innlendra innlána og útlána. Í dag eru þrír alþjóðlegir bankar með höfuðstöðvar á Íslandi og mat mitt engan veginn einskorðað við Kaupþing. Hins vegar bendi ég á að þetta kann að gerast ef framhald verði á neikvæðri ímynd íslensks fjármálakerfi erlendis.

Næst segja Staksteinar: "Varla mundi íslenzka ríkið hlaupa undir bagga með banka, sem væri hlaupinn af landi brott!" Nú er því þannig farið að erlendar starfsstöðvar íslensku bankanna heyra undir fjármálaeftirlit viðkomandi landa. Telja Staksteinar virkilega að íslenska ríkið sé t.d. að ábyrgjast húsnæðislánabanka í Noregi og Englandi sem eru í eigu Íslendinga eða fyrirtækjabanka í Danmörku sem er í eigu Íslendinga? Raunar eru hugmyndir um að íslenska ríkið hlaupi undir bagga með íslenskum fjármálafyrirtækjum byggðar á afar óljósum grunni, enda engin slík skylda fyrir hendi í íslenskum lögum. Því er með svipuðum hætti farið í öðrum löndum, bankar njóta ekki ríkisábyrgðar, hins vegar er talið að ríkið muni með einhverjum hætti bregðast við til að vernda þegna sína ef fjármálakerfinu er ógnað, en í því felst ekki vernd fyrir hluthafa bankanna. (Hins vegar eru sérstök lög um Tryggingasjóð innstæðueigenda sem viðskiptabankar og sparisjóðir stofnuðu til að mæta tjóni sem viðskiptavinir verða fyrir ef fjármálafyrirtæki er ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu).

Morgunblaðið fullyrðir síðan: "Vandi bankanna á Íslandi er ekki ímyndarvandi heldur spurning um traust." Það sem er augljóst af viðtalinu við mig er að ég tel ef íslensku bankarnir eru í raun traustsins verðir og ef þeir standast fyllilega samanburð við erlenda banka en ef ímynd Íslands er hins vegar neikvæð þá myndu bankarnir flytja sig þangað sem þeir teldu sig fá sanngjarnari umfjöllun. Enda sagði ég í viðtalinu " Ef þetta er ímyndarvandamál sem einskorðast við Ísland og erlendir fjárfestar vilja síður lána íslenskum bönkum þá gæti það jafnvel farið svo að einhverjir bankar flytji höfuðstöðvar sínar úr landi "
Að lokum segir í Staksteinum: "Yfirlýsingar um brottflutning duga hins vegar ekki til þess að kæfa umræður um þetta mál hér heima fyrir." Ég spyr á móti, hvaða yfirlýsingar um brottflutning? Ég hef enn ekki heyrt neinar slíkar. Og hvernig ætti, það að kæfa umræðuna um bankana hér á landi, að bæta traust þeirra utan landssteinanna?
Þórður Pálsson