„Aðstæður á íslenskum markaði einkenndust af miklum samdrætti í eftirspurn vegna minni fjárfestinga fyrirtækja í tæknibúnaði og uppsetningu hugbúnaðarkerfa,“ segir Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja í uppgjörstilkynningu frá samstæðunni.

Nýherji birt í gær ársuppgjör sitt fyrir árið 2009 þar sem fram kemur að rekstrarhagnaður samstæðunnar nemur rúmlega 1.360 milljónum króna en heildartap samstæðunnar nam tæpum 690 milljónum króna þegar búið er að taka tillit til endurmat fasteigna og annarra þátta.

„Á upplýsingatæknimarkaði hafa þessar aðstæður leitt til þrenginga en tugir milljarða króna hafa verið afskrifaðir af skuldum helstu keppinauta félagsins og fyrirtækin endurreist í eigu ríkisbanka,“ segir Þórður.

„Þessar aðgerðir raska samkeppnisaðstæðum og afkomu annarra fyrirtækja á upplýsingatæknimarkaði. Nýherji hefur mætt þessum efnahagserfiðleikunum með því að sjá á eftir á annað hundrað starfsmanna sinna frá hruni bankanna. Í janúar á þessu ári hefur reynst nauðsynlegt að grípa til frekari hagræðingaraðgerða til að mæta þeim óeðlilegu aðstæðum sem eru á innlendum markaði.“

Þórður segir að þó að óvissa sé mikil í efnahagslífinu séu jákvæð teikn um viðundandi rekstur á árinu 2010 þar sem horfur séu á að samningar náist um ýmis stærri verkefni hjá fyrirtækjum samstæðunnar hérlendis og erlendis.

„Til þess að tryggja fjárhagsstöðu félagsins er nú unnið með viðskiptabönkum að því að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu og samningum um langtíma fjármögnun í samræmi við þær aðgerðaáætlanir sem bankarnir hafa boðað gagnvart fyrirtækjum, ásamt aukningu á hlutafé Nýherja,“ segir Þórður en fram kemur að gert er ráð fyrir að því ferli verði lokið í öðrum ársfjórðungi.

Sjá nánar um uppgjör Nýherja í tengdri frétt hér að neðan.