Fjárfestingarstofan ? Invest in Iceland Agency ? sem rekin er af Útflutningsráði Íslands og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu hefur fengið nýjan framkvæmdastjóra. Þórður H. Hilmarsson rekstrarráðgjafi hefur tekið við starfinu af Inga G. Ingasyni sem veitt hefur stofunni forstöðu í áratug að því er segir í frétt Fjárfestingastofu.

Þórður hefur áratuga reynslu af viðskipta- og rekstrarráðgjöf auk stjórnunar nýsköpunarfyrirtækja, sem framkvæmdastjóri, stjórnarformaður og fulltrúi í stjórnum. Hann hefur einnig unnið skýrslur og úttektir fyrir atvinnuþróunarfélög. Ingi G. Ingason hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra GeoPlank.

Fjárfestingarstofan, stofnuð árið 1995, hefur það hlutverk að kynna Ísland og íslenskt atvinnulíf fyrir erlendum fjárfestum og fyrirtækjum og gegna ráðgjafar- og leiðbeiningarhlutverki fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér fjárfestingarkosti hér á landi. Fjárfestingarstofan sinnir einnig kynningu á Íslandi sem tökustað fyrir erlendar kvikmyndir og sjónvarpsefni og reglunum um 12% endurgreiðslu kostnaðar.

Markaðs- og upplýsingavefur Fjárfestingarstofunnar ? Invest in Iceland Agency ? er www.invest.is eða www.invest-in-iceland.com. Stofan er rekin af Útflutningsráði skv. samningi ráðsins og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. Verkefnisstjórn Fjárfestingarstofunnar er skipuð tveimur fulltrúum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og einum frá Útflutningsráði.