Þórður Vilberg Guðmundsson hefur ákveðið að gefa kost á sér í þriðja sæti  lista Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fara  29. Maí 2010. En póstkönnun, um uppstillinguna,  fer fram meðal flokksmanna í Fjarðabyggð í byrjun næsta árs.

Í tilkynningu kemur fram að Þórður er 23 ára gamall kennaranemi  og starfsmaður Veiðiflugunar á Reyðarfirði.  Hann hefur undanfarinn misseri  sinnt háskólanámi í Reykjavík og á Akureyri, en auk þess unnið ýmis störf með námi aðallega verslunarstörf en einnig var hann leiðbeinandi við leikskólann Lyngholt á Reyðarfirði veturinn 2006 - 2007. Þórður sat í 6.sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins  í Fjarðabyggð fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2006, þar sem flokkurinn vann góðan sigur og náði þremur fulltrúum í sveitarstjórn. Þórður sat í menningarnefnd Fjarðabyggðar fyrir Sjálfstæðisflokkinn 2006-2008.

Þórður er formaður Hávarrs fus. í Fjarðabyggð og varaformaður Sjálfstæðisfélags Reyðarfjarðar. Hann hefur þrátt fyrir ungan aldur  sinnt  fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, var formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Fjarðabyggðar 2007-2009 og átti sæti í varastjórn SUS 2005-2009. Þá er Þórður formaður leikfélags Reyðarfjarðar.

Í tilkynningu kemur fram að Þórður telur nauðsynlegt að leita allra leiða til hagræðingar í stjórnkerfi sveitarfélagsins  eftir  áralanga setu vinstrimanna, en um leið að standa vörð um grunnþjónustu  sveitarfélagsins svo sem menntamál og félegslega þjónustu.  Auk þess hefur hann  mikinn áhuga á íþróttum og telur að bjóða verði börnum upp á fjölbreytt val á sviði íþrótta og tómstunda.  Þórður telur að sveitarfélagið Fjarðabyggð hafi upp á margt að bjóða hvað varðar afþreyingu og menningu og vill stórbæta markaðssetningu þessara þátta og koma Fjarðabyggð á kortið sem fyrsta  valkost ferðamanna sem ferðast um Austurland.