Fundur fjármálaráðherra ESB ríkjanna í gær einkenndist af örvæntingu og baknagi, að því er segir í frétt Sunday Telegraph. Þegar þeir hittust var andrúmsloftið þegar orðið mjög slæmt vegna versnandi sambands Frakklands og Þýskalands og þess hve lítill árangur hefur náðst í að leysa skuldavandann sem hefur keyrt Grikkland og evruna mjög nærri barmi hyldýpisins. Það var því vart á það bætandi þegar ný skýrsla ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var kynnt, en í henni segir að komi ekki til greiðslufalls eða afskrifta á skuldum Grikklands gæti gríska skuldakreppan étið upp allan björgunarsjóð evrusvæðisins, eða um 440 milljarða evra, sem þýðir að ekkert yrði eftir til að styðja við ítalska, spænska eða franska banka.

Lagarde bítur frá sér

Í frásögn Telegraph segir að Christine Lagarde, núverandi yfirmaður AGS og fyrrverandi fjármálaráðherra Frakklands, hafi sagt ráðherrunum að AGS væri ekki lengur tilbúinn að axla þriðjung kostnaðarins við björgun Grikklands nema til kæmu 50% afskriftir grískra ríkisskulda hjá evrópskum bönkum. Skýrsla AGS og ESB gaf þeim byr undir báða vængi sem hafa viljað að evrópskir bankar afskrifi hluta af skuldum Grikklands, en sá hópur er undir forystu Þjóðverja. Frakkland og Seðlabanki Evrópu hafa hins vegar staðið í veginum fyrir slíkum afskriftum af ótta við að þær myndu skaða franska banka og fjármálastöðugleika í álfunni. Sú staðreynd að yfirmaður AGS er fyrrverandi franskur ráðherra virðist ekki ætla að verða Frakklandi og frönskum stjórnvöldum til framdráttar. Í frásögninni er greint frá því að þegar nýskipaður fjármálaráðherra Frakklands, Francois Baroin, reyndi að standa í veginum fyrir afskriftum með því að benda á að afleiðingarnar yrðu mestar meðal franskra banka og að þær gætu ógnað lánshæfiseinkunn Frakklands. Haft er eftir einum diplómata á svæðinu að Lagarde hafi barið franska ráðherrann niður og hafi notað til þess fullkomna ensku, en Baroin er ekki sleipur í því tungumáli.

Öskrin heyrðust fram á gang

Eins og áður segir er samband Frakklands og Þýskalands mjög erfitt um þessar mundir og herma fregnir að á miðvikudaginn hafi Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, og Angela Merkel, Þýskalandskanslari, átt snörp orðaskil við í Frankfurt, þar sem verið var að heiðra seðlabankastjóra Evrópu, Jean-Claude Trichet. Eiga þau að hafa öskrað hvert á annað og lætin heyrst inni í tónleikasalnum við hliðina þar sem hljómsveitin var að undirbúa flutning á Óðinum til gleðinnar. Fjármálaráðherrar ESB segja að engin leið sé fyrir þá að taka neinar ákvarðanir fyrr en Sarkozy og Merkel hafa grafið stríðsöxina og því hafi fundurinn í gær ekki komið að meira gagni en hver önnur hagfræðiráðstefna. Tilgangsleysi fundarins var svo mikið að belgíski fjármálaráðherrann, Didier Reynders, fór snemma til að geta mætt á frumsýningu á nýju Tinnamyndinni. Í dag hittast svo leiðtogar Evrópuríkja og er vonast til að þeir nái meiri árangri á sínum fundi en fjármálaráðherrarnir náðu í gær.