Að sögn Þorvaldar Gylfasonar prófessors í hagfræði hefur önnur greiðsla frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum aðallega tafist af tæknilegum ástæðum, en einnig vegna þróunar í stjórnmálum. ,,Mér er ekki kunnugt um neinn ágreining milli stjórnvalda og sjóðsins um hagstjórnina. Mér hefur heyrzt vera góður samhljómur í málflutningi ríkisstjórnarflokkanna um efnahagsmál og einhugur um að vinna áfram að framgangi áætlunarinnar frá í nóvember."

Í skriflegu svari frá Þorvaldi kemur fram að honum þykir eðlilegt að ríkisstjórnin hafi ekki enn kunngert með hvaða ráðum hún hyggst ná endum saman í fjármálum ríkisins. Þögnin um það mál sé skiljanleg í ljósi kosninganna. ,,Líklegt virðist, að skírskotun fulltrúa sjóðsins til,,þróunar í stjórnmálum“ markist af þessu og einnig kannski af óvissunni um afstöðu næstu ríkisstjórnar til ESB og evrunnar. Væri áætlun um upptöku evrunnar inni í myndinni, myndu skapast skilyrði til að hagræða samkomulaginu við sjóðinn í veigamiklum atriðum, til dæmis varðandi gjaldeyrishöftin," segir Þorvaldur.

Þorvaldur sagði að sjóðurinn stýri engu á Íslandi og eigi ekki að gera það. ,,Hann er hér í boði innlendra stjórnvalda, þar eð þau telja sig þurfa á ráðum sjóðsins og lánsfé að halda. Efnahagsáætlunin, sem unnið er eftir, er áætlun ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans. Sjóðurinn gegnir ráðgjafarhlutverki. Ef hann telur, að nýjar ráðstafanir innlendra stjórnvalda vinni gegn markmiðum áætlunarinnar, áskilur sjóðurinn sér rétt til að draga sig í hlé og stöðva lánveitingar til Íslands. Aðstoð sjóðsins er lykillinn að endurheimtu lánstrausti Íslendinga í útlöndum. Þetta er þrautreynt fyrirkomulag meira en hálfa öld aftur í tímann."

Hefur pólitískur óstöðugleiki – sem meðal annars birst í stjórnarskiptum – haft áhrif? Ef svo er hver?

,,Pólitískur óstöðugleiki tefur að öðru jöfnu fyrir, að ráðlegt sé að slaka á klónni í hagstjórninni, til dæmis í vaxtamálum. Þetta stafar af því, að pólitískum óstöðugleika fylgir meiri hætta en ella á verðbólgu og þar af leiðandi meiri þörf fyrir strangt aðhald. Þannig horfir málið við sjóðnum."

Nú er sjóðurinn að auka viðveru sína hér – með opnun skrifstofu – er það í samræmi við það sem þeir ætluðu að gera að þínu mati?

,,Starfræksla skrifstofu sjóðsins á Íslandi er eðlilegt og lofsvert framtak í ljósi þess, að lán sjóðsins til Íslands er mjög há fjárhæð miðað við kvóta Íslands í sjóðnum og miðað við landsframleiðslu. Sjóðurinn tekur umtalsverða áhættu með lánveitingunni og þarf því að fylgjast vel með framvindunni frá degi til dags. Skrifstofur sjóðsins í aðildarlöndum, sem sjóðurinn styður, eru margar, og þær auðvelda samskipti sjóðsins við stjórnvöld á hverjum stað, til dæmis í Sambíu, þar sem Birgir Árnason hagfræðingur er nú skrifstofustjóri sjóðsins."