Að sögn Þorvaldar Gylfasonar hagfræðiprófessors telur hann áætlun ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans með stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vera í réttum farvegi. Hann bendir á máli sínu til stuðnings að þegar sendinefnd sjóðsins var á Íslandi í reglubundinni eftirlitsferð fyrir nokkru, hafi hún ekki séð ástæðu til að endurskoða stöðumat sitt frá í nóvember 2008.

,,Eina umtalsverða frávikið frá upphaflega stöðumatinu er nokkru meiri aukning atvinnuleysis fyrstu mánuði þessa árs en sjóðurinn gerði ráð fyrir, en aukningin var þó í samræmi við mat Seðlabankans. Þegar endurmat á eignum gömlu bankanna liggur fyrir fljótlega, verður hægt að leggjast aftur yfir málið. Fróðlegt verður að sjá, hvort upphaflega stöðumatið stenzt. Vonir standa til, að það þurfi ekki að breytast. Fari svo, verður hagvöxturinn aftur kominn á fulla ferð 2011 að mati sjóðsins, og gjaldeyrishöftin verða úr sögunni, enda áttu þau að vera tímabundin. Gjaldeyrishöftin mega ekki verða varanleg líkt og sumar aðrar tímabundnar neyðarráðstafanir á fyrri tíð urðu varanlegar, til dæmis búvöruinnflutningsbannið og verðtryggingin," segir Þorvaldur í skriflegu svari til Viðskiptablaðið.

Þorvaldur segir að eina færa leiðin til að losna undan gjaldeyrishöftunum sem fyrst sé annaðhvort að leyfa krónunni að falla til botns og taka þá áhættu, að hún festist við botninn og verði lengi að losna líkt og stundum gerist, eða að sækja án frekari tafar um inngöngu i Evrópusambandið og taka upp evruna eins fljótt og hægt er með stuðningi sambandsins.

,,Ríkisstjórnin hefur þegar hafnað fyrri kostinum – að leyfa krónunni að falla til botns. Hún á þó eftir að viðurkenna, að þeirri ákvörðun fylgir samþykkt á síðari kostinum – að ganga í ESB og taka upp evruna. Vonir standa til, að slík viðurkenning verði lögð fyrir skömmu eftir kosningar. Gjaldeyrishöft koma ekki til greina sem frambúðarskipan, enda þyrfti þá trúlega að vísa Íslandi út af Evrópska efnahagssvæðinu," sagði Þorvaldur.