Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor segist telja að gengi krónunnar sé nú að nálægt réttu lagi, svo sem ráða má af verðsamanburði á ýmsum varningi innan lands og utan.

„Verðið á geisladiskum til dæmis er nú svipað hér heima og víða erlendis, og það er ásamt öðru vísbending um, að gengi krónunnar sé nú nokkurn veginn rétt," segir Þorvaldur.

Í skriflegu svari Þorvalds við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir hann sé horft til þess að landsframleiðsla á mann í dollurum sé miðað við gengið nú um fimmtungi minni en í Bandaríkjunum, og það sér nokkurn veginn rétt hlutfall.

,,Krónan var of hátt skráð, þegar ódýrt erlent lánsfé fossaði inn í landið, en nú er þeim kafla lokið, og krónan leitar nýs jafnvægis. Rétt gengi krónunnar eins og nú háttar er að mínum dómi nálægt 150 krónum fyrir hverja evru eða þar um bil, kannski 180, en varla 120. Ég á ekki von á, að gengið eigi eftir að rísa langt upp fyrir það mark nema kannski skamma hríð í senn. Hitt virðist trúlegra, að gengið falli niður fyrir núverandi mark, þegar slakað verður á gjaldeyrishöftunum, nema samkomulag náist áður um upptöku evrunnar.

Það skiptir sköpum fyrir Íslendinga að ganga inn á evrusvæðið á réttu gengi, og heldur á of lágu gengi en of háu, því að lágt gengi örvar útflutningsatvinnuvegina. Aukinn útflutningur á vörum og þjónustu í krafti rétts gengis getur orðið ein helzta lyftistöngin undir atvinnulífið og batnandi lífskjör almennings, þegar kreppunni slotar, líkt og gerðist til dæmis í Suður-Kóreu fyrir áratug. Tími hágengisstefnunnar er liðinn," segir Þorvaldur í svari sínu.