Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, segist telja að sú niðurstaða sem nú liggi fyrir varðandi Landsbankann tóni við það sem lýst var í upphafi en hafi því miður horfið fyrir öllum svartsýnisröddunum. Hann segist telja að Icesave-skuldbindingin eins og hún liggi fyrir núna sé mjög viðráðanleg.

Þorvaldur sagði að nú væri nokkur tími liðinn og um leið hafi betri upplýsingar komið fram. Uppgjörið eins og það birtist nú sé mat skilanefndar Landsbankans á þessum tímapunkti og byggir á áætluðu verðmæti þeirra eigna sem seldar verða. ,,Við verðum auðvitað að taka þessu með þeim fyrirvara að ef ástandið versnar aftur í heiminum getur verðmætið lækkað en ef hins vegar ástandið batnar þá getur það hækkað. Á endanum þurfum við kannski ekkert að borga,“ sagði Þorvaldur Lúðvík en hann segir að umræðan um Icesave hafi verið ómarkviss og lítt upplýsandi.

Tveir óvissuþættir

,,Það sem skiptir máli núna er núverandi mat á þeim eignum sem eru að baki þessari Icesave-skuld – eða það sem gæti komið upp í skuldbindingu ríkisins. Þetta setur ríkissjóð í óvissu með 75 milljarða króna eins og málið lítur út í dag. Við það bætist hversu lengi við þurfum að greiða vexti af heildarupphæðinni. Til að skýra þetta betur má segja að óvissuþættirnir séu tveir; hve lengi mun taka að selja eignir upp í þessa skuld og í öðru lagi hversu mikið fæst fyrir þessar eignir á endanum. Það er ljóst að þessi tala gæti rokkað á bilinu 50 milljarðar upp í 150 til 200 milljarða króna. Þetta eru ekki hræðilegri tölur en það og ef við setjum það í samhengi þá sést að þetta eru um það bil 15% af landsframleiðslu eða um 30% af fjárlögum. Það er ekki verið að setja þjóðina á skuldaklafa um aldur og ævi með þessu.“

Þorvaldur sagðist telja það jákvætt að málið skuli vera komið í þennan farveg. Ljóst sé að ríkið muni eiga a.m.k. 80% í Landsbankanum en hann telji ekki að verið sé að henda þeim peningum út um gluggann heldur eigi ríkið nú 80% í eigin fé bankans. ,,Ríkið fær þá fjármuni vonandi til baka, annað hvort með sölu bankans í fyllingu tímans eða ríkið eins og hver annars fjárfestir fær arð af sinni fjárfestingu. Það er ekki annað að sjá en að eftir tiltekt bankakerfisins og rekstrarhæfi í kjölfar endurskipulagningar séu möguleikar Landsbankans ágætir til þess að skila eigendum sínum arði.“