Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital Fjárfestingarbanka hf., hefur sent frá sér tilkynningu sem viðbrögð við grein Margeirs Péturssonar, stofnanda MP Banka, í Fréttablaðinu í dag.

Í svari sínu segir Þorvaldur Lúðvík að í grein Margeirs komi fram dylgjur er varða Saga Capital og málflutningurinn í þeirra garð byggi á misskilningi og gætir þar beinlínis rangfærslna.

Í Svari sínu segir Þorvaldur Lúðvík:

,,1. Fáheyrðar bókhaldsbrellur Saga Capital gerir ársreikning sinn skv. alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS). Fjármálastofnunum ber að fylgja lögum og reglum er varða reikningsskil og það hefur Saga Capital ávallt gert. Það sem er í greininni kallað fáheyrðar bókhaldsbrellur er uppgjör sem fylgir í einu og öllu núgildandi lögum og reglum um reikningsskil, enda var Saga Capital ekki heimilt að gera upp reikninga sína á annan hátt.

2. Kennitöluskipti Saga Capital hefur haft sömu kennitölu frá stofnun. Yfirstandandi endurskipulagning, sem gerð er í nánu samstarfi við stjórnvöld, breytir engu þar um.

3. Enron-líkingar Líkingin við Enron er grafalvarleg og einkar ómakleg. Ólíkt mörgum öðrum bankastofnunum landsins er Saga Capital ekki til rannsóknar hjá neinum yfirvöldum og hefur ávallt lagt mikið upp úr gegnsæi og lögmæti í allri starfsemi sinni. Því skal hér haldið vendilega til haga að Saga Capital hefur hvorki hlotið styrki né mun króna falla á skattgreiðendur vegna bankans. Þá skal það enn fremur áréttað að ríkissjóður mun ekki bera skaða af vandamálaláni sínu er hann erfði frá Seðlabanka Íslands, það lán verður greitt að fullu til baka.

Mér þykir miður að þurfa að svara fyrir rakalausar ávirðingar í garð þess fyrirtækis er ég starfa fyrir, en sé manni stillt upp við vegg  með þeim hætti sem þarna var gert, þá er það mín skylda að koma því rétta á framfæri. Að lokum vil ég óska Margeiri Péturssyni og starfsfólki hans gleðilegra jóla og velfarnaðar í starfi og leik á ári komanda."

Undir þetta skrifar Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital Fjárfestingarbanka hf.