Þorvaldur Gylfason prófessor stuttist við röng gögn þegar hann fullyrti að vaxtamunur hefði hækkað hér á landi í Silfri Egils um síðustu helgi. Í frétt á heimasíðu Seðlabankans kemur fram að þau mistök áttu sér stað þegar fyrirspurn Þorvaldar um vaxtamun bankanna var svarað að hann fékk í hendur gögn um vexti verðtryggðra innlána í stað óverðtryggðra. Seðlabankinn hefur leiðrétt þessa augljósu skekkju við Þorvald og beðið hann afsökunar.

Í frétt Seðlabankans kemur fram að vaxtamun banka má reikna með nokkrum aðferðum. Ein er sú að reikna mun á vaxtatekjum og vaxtagjöldum banka sem hlutfall af niðurstöðutölu efnahagsreiknings. Þessi aðferð er gjarnan notuð við samanburð á vaxtamun milli landa. Í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabanki Íslands gaf út í apríl í ár er mynd á síðu 45 þar sem vaxtamunur samstæðna íslensku bankanna er sýndur, mældur með þessari aðferð. Myndin sýnir að vaxtamunur hefur lækkað að undanförnu og verið um 1,9% á síðasta ári.

Önnur aðferð er sú sem Þorvaldur Gylfason notar og felst í því að velja inn- og útlánsflokka og bera saman vaxtakjör þeirra. Í frétt Seðlabankans kemur fram að þessi aðferð er talsvert vandasöm, þar sem það skiptir verulegu máli hversu mikið notuð viðkomandi innlánsform eru og skipta þar m.a. máli binding fjár og kvaðir sem kunna að fylgja innlögn eða útlausn þess. Alþjóðlegar fyrirmyndir eru sama marki brenndar og því er óhægt um vik að bera saman vaxtamun banka milli landa með þessum aðferðum.

Engu að síður hefur Seðlabankinn gert tilraun til að meta vaxtamun bankastofnana með þessari aðferð og sýnir hér tvö dæmi, en undir-strika ber að þessar aðferðir eru ekki endilega réttari en aðrar. Þann fyrirvara verður að gera að vextir peningamarkaðsreikninga, sem í þessu tilviku eru notaðir sem viðmið á innlánsvöxtum, eru ekki vegnir á milli bankastofnana, þar sem upplýsingar um notkun þeirra liggja ekki fyrir. Að auki eru ólíkir skilmálar á milli stofnana um bindingu og fjárhæðarmörk.