*

mánudagur, 20. september 2021
Innlent 7. maí 2021 13:16

Örvar hagnast um hálfan milljarð

Riverside Capital ehf., fjárfestingafélags Örvars Kjærnested, stjórnarmanns í Stoðum. hagnaðist um 544 milljónir króna í fyrra.

Ritstjórn
Örvar Kjærnested.
Haraldur Jónasson

Riverside Capital ehf., fjárfestingafélags Örvars Kjærnested hagnaðist um 544 milljónir króna á síðasta ári miðað við 3 milljónir króna á fyrra ári. Hagnaðurinn kemur fyrst og fremst til vegna eignarhlutar í fjárfestingafélaginu S121 sem er stærsti hluthafi Stoða. Hlutdeildartekjur Riverside eru bókfærðar á 529 milljónir króna.

Eignarhlutir í verðbréfum er metinn á tvo milljarða króna í ársreikningnum, eigið fé á 933 milljónir króna og skuldir á 1,15 milljarða króna en þar af er skuld við móðurfélag metið á 494 milljónir króna, en félagið er í eigu Riverside Capital Sàrl í Lúxemborg.

Örvar var stjórnarformaður TM fram að sameiningu Kviku og TM fyrr á þessu ári. Stoðir voru þá bæði stærstu hluthafar TM og Kviku. Þá á Örvar einnig sæti í stjórn Stoða en á árunum 1999-2008 starfaði hann hjá Kaupþingi.

Stoðir eru eitt stærsta fjárfestingafélag landsins en félagið hagnaðist um 7,6 milljarða króna á síðasta ári og nam eigið fé félagsins 31,7 milljörðum króna í lok árs 2020. Félagið er jafnframt stærsti hluthafi Símans, stór hluthafi í Arion banka og fjárfesti nýlega í flugfélaginu Play.

Stikkorð: Stoðir TM Kvika Örvar Kjærnested