Algert hrun hefur orðið á þýska hlutabréfamarkðinum í dag og hafði DAX- vísitalan í Frankfurt fallið um 5,6% á hádegi og er nú komin niður fyrir sjö þúsund stig eða í 6.906 stig og hefur ekki verið lægri frá því í apríl í fyrra. “Paníkstemming” fellir DAX segir í fyrirsögn Das Handelsblatt í Þýskalandi og sagt að fjárfestar selji bréf í örvæntingu.

Ástæða lækkunarinnar í Þýskalandi er eins og annars staðar rakin til ótta við niðursveifli í Bandaríkjunum. “Hér ríkir hrein og klár örvænting” hefur blaðið eftir einum verðbréfamiðlara, annar talaði um “algera útsölu” og að lausafé væri það sem öllu máli skipti.

Þótt hlutabréf hafi lækkað yfir línuna eru það einkum gengi bréfa í fjármálafyrirtækjum sem hefur lækkað mest, gengi bréfa Deutsche Bank hafði lækkað um 6% og gengi bréfa Commerzbank lækkaði um 5,7% og var komið niður fyrir 20 evrur á hlutinn og um tíma var gengið komið niður fyrir það sem það var í ágúst 2006.