Stjórnendur tískukeðjunnar French Connection segjast búast við að ný umdeild auglýsingaherferð fyrirtækisins, þar sem tvær stúlkur sjást kyssast ástríðufullum kossi, muni verða tll þess að gæfan snúist fyrirtækinu í vil á nýjan leik en síðasta ár var það erfiðasta í sögu félagsins. Á dögunum var gefin út afkomuviðvörun og Stephen Marks, stjórnarformaður tískukeðjunnar, hefur sagt hluthöfum félagsins að hagnaður hafi dregist saman um 64% á síðasta ári. Baugur Group er næst stærsti hluthafinn í félaginu með 14% hlut.

Auglýsingin umdeilda, sem vonir French Connection eru bundnar við, sýnir tvær ungar konur í heitum Kung Fu bardaga sem síðan leysist upp í ástaratlot. Það er von stjórnenda French Connection að auglýsingaherferðin muni verði til þess að auka áhuga neytenda á vörumerkinu og auka söluna. Ekki er ennþá komið í ljós hvort að auglýsingin hafi tilætluð áhrif en augljóst er að hún hefur vakið mikla athygli og hundruð óánægðra áhorfenda hafa sent kvartanir til French Connection vegna auglýsinganna og auglýsingaeftirlitið í Bretlandi hefur til athugunar hvort leyfilegt sé að sýna auglýsinguna í sjónvarpi fyrir klukkan níu á kvöldin.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem French Connection hefur reynt að vekja á sér athygli með umdeildum hætti en frægt varð þegar félagið hóf að auglýsa undir vörumerkinu FCUK sem er skammstöfun fyrir French Connection United Kingdom (French Connection í Bretlandi) en með því að víxla stöfunum lítillega kemur í ljós argasti dónaskapur og var t.d. auglýsingaherferð tískukeðjunnar í Kína undir þessu vörumerki bönnuð.

Ljóst er að auglýsingin þarf að gera kraftaverk fyrir French Connection þar sem horfurnar eru ekki góðar. Framlengja þurfti útsölur í búðum keðjunnar til að klára birgðirnir af vetrarfötum og pantanir á sumarlínunni hafa dregist saman um 25%. Hlutabréf félagsins í Kauphöll Lundúna hafa lækkað mikið síðan afkomuviðvörunin var birt og getgátur þess efnis að félagið verði skráð af hlutabréfamarkaði hafa farið af stað í kjölfarið.