Starfshópur um öryggismál ráðherra og annarra í æðstu stjórn ríkisins starfar nú í forsætisráðuneyti. Starfshópnum var komið á laggirnar i kjölfar athugasemda Ríkislögreglustjóra um öryggismál æðstu stjórnenda ríkisins. Ekkert fæst uppgefið um tillögur starfshópsins eða hvenær þeim verður skilað.

„Starfshópurinn er enn að störfum og skipunartími hans er ekki festur í tíma. Þar til umfjöllunar eru öryggismál æðstu stjórnar ríkisins. Slík mál, eðli máls samkvæmt, eru sífellt í endurskoðun og ekki hægt að tilgreina. Það á þar á meðal við um störf hópsins og tillögur,“ segir Jörundur Valtýsson, formaður nefndarinnar. Leiða má líkur að því að starfshópurinn hafi verið skipaður vegna þess að öryggi ráðherra þótti ekki fullnægjandi samkvæmt tillögum Ríkislögreglustjóra.